Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fer fram á að stjórnvöld gefi vilyrði um að hækka grunnatvinnuleysisbætur, sem nú eru 289.510 krónur, og þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta samhliða þeim aðgerðarpakka sem þau kynntu í morgun fyrir atvinnulífið.
Sá pakki er metinn á 25 milljarða króna af ríkisstjórninni, telur átta aðgerðir, og felur meðal annars í sér lækkun á tryggingagjaldi og beina styrki til fyrirtækja úr ríkissjóði sem hafa orðið fyrir tekjuhruni vegna kórónuveirufaraldursins. ASÍ telur sumar aðgerðanna vera lítt úthugsaðar og fer fram á að koma að útfærslu þeirra.
Sambandið mótmælir til að mynda lækkun tryggingagjalds þar sem það standi undir mikilvægum innviðum á borð við fæðingarorlof og atvinnuleysistryggingum, auk þess sem það hafi þegar lækkað um 0,5 prósent á síðustu tveimur árum og sé „nánast eini skatturinn sem fyrirtæki greiða“. „Lækkun tryggingagjalds þvert á atvinnugreinar mætir ekki kröfu ASÍ um sértækar aðgerðir til að mæta sértækum vanda. Verði þessi leið farin þurfa stjórnvöld að brúa bilið. ASÍ áréttar að það kemur alls ekki til álita að fresta lengingu fæðingarorlofs eða skerða greiðslur í fæðingarorlofi.“
Í tilkynningu frá ASÍ, þar sem viðbrögðum sambandsins við aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar er lýst, segir að í yfirlýsingu stjórnvalda skorti „heildarsýn um þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til vegna Covid-kreppunnar. Alþjóðlegum stofnunum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og OECD ber saman um að lykilverkefnið sé að tryggja afkomuöryggi fólks. Með því verði komið í veg fyrir að kreppan verði djúp og langvinn.“ Þess vegna þurfi að hækka atvinnuleysisbætur.
Auk þess setur ASÍ fram skýlausa kröfu um að í frumvarpi til starfskjaralaga, sem leggja á fram á haustþingi, verði kveðið á um févíti vegna launaþjófnaðar. „Það er með öllu ólíðandi að atvinnurekendur komist upp með að stela launum fólks og með ólíkindum að stjórnvöld hiki við að leiða í lög tæki sem raunverulega bíta gegn svo siðlausu athæfi. “
Segja opinberu fé vera ausið til efnafólks
Efling sendi einnig frá sér tilkynningu í hádeginu vegna aðgerðarpakka stjórnvalda. Þar segir að þær aðgerðir sem hönd sé á festandi í yfirlýsingu stjórnvalda styðji eingöngu „atvinnurekendur og efnafólk, láta undan óeðlilegum þrýstingi þeirra og hlunnfara vinnandi fólk.“
Efling gagnrýnir, líkt og ASÍ, að ekki sé að finna neinar efndir á loforði um að lögbinda févíti vegna launaþjófnaðar. Þá segir í tilkynningu stéttarfélagsins að loforð um skattaafslátt til stórefnafólks sem standi í hlutabréfakaupum veki algjöra furðu. „Sú aðgerð gengur þvert á markmið skattkerfisbreytinga sem lofað var í tengslum við lífskjarasamninganna. Þeim breytingum var ætlað að leiðrétta „stóru skattatilfærslu“ síðustu áratuga frá hálauna- og stóreignafólki yfir á herðar láglaunafólks. Efling harmar að sjá ríkisstjórnina vinna þannig gegn réttlátara skattkerfi.“
Í tilkynningu Eflingar er sömuleiðis gagnrýnt að ekkert sé fjallað um tillögur verkalýðshreyfingarinnar um hækkun grunnatvinnuleysisbóta og sagt að ríkisstjórnin hafi látið Samtök atvinnulífsins beita sig hótunum um uppsögn kjarasamninga sem aldrei hafi verið innistæða fyrir. „Fjöldi fyrirtækja um allt land eru í ágætum rekstri og ekki á þeim buxum að hefja ófrið um allan vinnumarkaðinn. Í stað þess að halda sjálfsvirðingu sinni og verja hagsmuni almennings lætur ríkisstjórnin neyða sig til að ausa enn meira fé úr sjóðum hins opinbera til efnafólks og stöndugra fyrirtækja.“
Í niðurlagi tilkynningarinnar segir að .au vinnubrögð atvinnurekenda sem ríkisstjórnin hafi nú veitt samþykki sitt boði ekki gott fyrir áform um samráð aðila vinnumarkaðarins um svokallaða grænbók um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála, sem rætt var um í aðgerðapakkanum. „Kostulegt er að stjórnvöld ímyndi sér að grundvöllur sé fyrir slíku samráði meðan launaþjófnaður, brot vinnumarkaðslöggjöfinni og hótanir um samningsrof viðgangast átölulaust.“