Icelandair Group hefur tilkynnt um uppsagnir 88 starfsmanna félagsins frá 1. október næstkomandi. Stærstur hluti hópsins eru flugmenn, eða 68, en auk þess var 20 starfsmönnum af ýmsum öðrum sviðum félagsins sagt upp. Í tilkynningu segir að enn fremur muni nokkrir tugir starfsmanna ljúka tímabundnum ráðningarsamningum um komandi mánaðamót.
Icelandair Group segir að uppsagnirnar séu viðbragð við þeim samdrætti sem verið hefur í flugi vegna hertra ferðatakmarkana á landamærum hér á landi sem tóku gildi seinnipartinn í ágúst. „Ljóst er að félagið stendur frammi fyrir áframhaldandi óvissu vegna kórónuveirufaraldursins. Í kjölfar vel heppnaðs hlutafjárútboðs er félagið hins vegar vel í stakk búið til að komast í gegnum þá óvissu sem framundan er og jafnframt bregðast hratt við um leið og aðstæður leyfa. Félagið vonast til að hægt verði að draga uppsagnir til baka um leið og ástandið batnar og eftirspurn eftir flugi tekur við sér á ný.“
Félagið hélt hlutafjárútboð fyrr í þessum mánuði. Icelandair Group ætlaði sér að safna að minnsta kosti 20 milljörðum króna í útboðinu. Hægt yrði að hækka þá fjárhæð í 23 milljarða króna ef umframeftirspurn yrði.
Flestar þeirra efnahagsaðgerða sem íslenska ríkið hefur gripið til vegna kórónuveirufaraldursins hafa auk þess verið sniðnar að Icelandair Group. Félagið var það einstaka fyrirtæki sem nýtti mest allra hlutabótaleið stjórnvalda. Í mars og apríl fengu launamenn hjá þeim félögum sem mynda Icelandair-samstæðuna alls um 1,1 milljarð króna í greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna minnkaðs starfshlutfalls. Icelandair nýtti líka leiðina í maí en ekki hefur verið greint frá því hversu háar greiðslur Vinnumálastofnunar vegna starfsmanna samstæðunnar námu þann mánuð.
Þá fóru rúmlega 3,4 milljarðar króna af hinum svokölluðu uppsagnarstyrkjunum, sem samtals námu átta milljörðum króna, til Icelandair Group eða tengdra aðila, eða um 43 prósent heildarupphæðarinnar vegna uppsagna á fjórða þúsund starfsmanna.
Til viðbótar við allt ofangreint þá hafa ríkisbankarnir tveir heitið því að leggja fram rekstrarlínu upp á samtals sjö milljarða króna sem Icelandair mun geta dregið á. Íslandsbanki leggur til fjóra af þeim milljörðum króna en Landsbankinn þrjá.
Icelandair mun auk þess fá þrautavaralánalínu upp á 16,5 milljarða króna, sem félagið getur dregið á ef allur annar peningur er búinn. Íslandsbanki og Landsbankinn munu skipta því láni á milli sín, og lána 8,25 milljarða króna hvor ef á línuna reynir.
Alþingi samþykkti nýverið að ábyrgjast 90 prósent lánalínunnar, eða tæplega 15 milljarða króna.