Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir því að halli ríkissjóðs verði 264 milljarðar króna. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði á kynningarfundi í fjármálaráðuneytinu að góðri stöðu ríkissjóðs yrði beitt til þess að takast á við stöðuna sem þjóðarbúið er í vegna kórónuveirufaraldursins. Ráðist yrði í lántökur til þess að fjármagna það að mæta útblásnum gjaldakerfum fremur en að hækka skatta. Það væri hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar.
Halli ríkissjóðs verður rúmir 269 milljarðar í ár og er samanlagður halli þessa árs og þess næsta því yfir 530 milljarðar króna. Bjarni sagði að reiknað væri með því, í fjármálaáætlun 2021-2025, að skuldastaða ríkisins myndi versna út tímabilið og að samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs yrði um 900 milljarðar fram til ársins 2025.
Stefnt er að jákvæðum frumjöfnuði á rekstri ríkissjóðs árið 2025 og sagði Bjarni á kynningarfundinum að það væri pólitíska verkefnið næstu árin, að tryggja að við lok tímabils fjármálaáætlunar yrði ríkissjóður ekki lengur rekinn með verulegum halla.
Bjarni sagði að ríkisstjórnin trúði því að það að beita ríkisfjármálunum til þess að takast á við stöðuna, í stað þess að grípa til niðurskurðar í þjónustu, myndi skila okkur á betri stað þegar krísunni væri lokið. Hann sagði að það væri í rauninni ekki valkostur að fara í harkalegan niðurskurð eða tekjuöflun þegar það væri ekki neitt til skiptanna hjá fyrirtækjunum í landinu.
Afkoma versnar um 192 milljarða vegna faraldursins
Samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins mun afkoma ríkissjóðs á næsta ári versna um 192 milljarða króna vegna beinna efnahagslegra áhrifa faraldursins og ákvarðana til að sporna við afleiðingum hans.
Þar vegur samdráttur skatttekna vegna minni umsvifa þyngst, en hann nemur um 89 milljörðum króna. Einnig minnka tekjur ríkissjóðs vegna aðgerða til að bregðast við heimsfaraldrinum, meðal annars með því að endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu, flýtingu á lækkun bankaskatts og niðurfellingu gistináttaskatts en samtals kosta þessar aðgerðir ríkissjóð um 17 milljarða króna.
Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 23 milljarða króna á milli ára. Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætluð um 35 milljarðar króna, en þar má nefna fjárfestingar- og uppbyggingarátak, eflingu háskóla- og framhaldsskólastigs til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar. Þá er gert ráð fyrir að arðgreiðslur frá lögum í eigu ríkisins lækki um 27 milljarða króna, samkvæmt tilkynningu stjórnvalda.
Skuldasöfnun verði stöðvuð 2025
Bjarni lagði áherslu á það, sem áður segir, að stefnt yrði að því að rekstur ríkissjóðs yrði kominn í jafnvægi árið 2025. Á vef stjórnarráðsins segir að ríkisstjórnin telji mikilvægt að stöðva skuldasöfnunina á því ári og „rjúfa með því vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar til að endurheimta styrka fjárhagsstöðu hins opinbera.“