Helgi Hrafn Gunnarsson er orðinn þingflokksformaður Pírata, en hann var kjörinn á þingflokksfundi á dögunum og tekur við embættinu af Halldóru Mogensen. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var við sama tilefni kjörin varaþingflokksformaður og Smári McCarthy verður næsti ritari þingflokksins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Pírata.
Á þessum sama þingflokksfundi var einnig skipt um formann flokksins. Það var gert með hlutkesti, eins og Píratar hafa gert við upphaf vers löggjafarþings. Í þetta sinn varð Jón Þór Ólafsson fyrir valinu og er hann því nýr formaður Pírata, en því embætti fylgja engar formlegar skyldur eða valdheimildir.
„Jón Þór mun þannig, rétt eins og fyrri formenn Pírata, hafna 50 prósenta formannsálagi á þingfararkaup. Þingflokkur Pírata stendur fyrir formannsvalinu til að uppfylla formkröfur Alþingis og þannig tryggja aðgang að sömu aðstoð og aðrir þingflokkar njóta,“ segir í tilkynningu frá þingflokknum.Formenn stjórnmálaflokka, sem jafnframt eru ekki ráðherrar, hafa rétt til þess að ráða sér aðstoðarmenn í fullt starf og ef að enginn væri formaðurinn væri engin heimild fyrir Pírata til þess að ráða inn þennan einstakling til starfa.