„Abraham Lincoln sagði að besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina væri að skapa hana og nú þurfum við að hafa kjark til þess. Átök íslenskra stjórnmála næsta árið munu og þurfa að snúast um hvert skal stefna. Rétta leiðin , ábyrga leiðin, felst í því að ráðast strax í kraftmikla græna fjárfestingaráætlun, aðgerðir sem vinna gegn hamfarahlýnun en skapa um leið atvinnu og verðmætasköpun fyrir okkur öll.“
Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.
Í ræðu Loga kom fram að hann líti á það sem hlutverk Samfylkingarinnar að leiða saman þau öfl sem væru tilbúin að fylkja sér um vinnu, velferð og græna framtíð „og mynda græna félagshyggjustjórn að ári, sem getur varðað nýja leið.“
Íslendingar hafi ekki efni á hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins
Logi sagði að hann væri sannfærður um að hægt væri að skapa betra og sterkara velferðarsamfélag á Íslandi þar sem ekkert barn færi svangt að sofa, húsnæðisöruggi væri jafn sjálfsagt og aðgangur að vatni eða lofti, þar sem gjaldmiðillinn væri stöðugri og matarkarfan ódýrari. „Þar sem atvinnulausir, öryrkjar og fátækt fólk búa ekki við nístandi óvissu frá degi til dags. Þar sem hvers kyns mismunun er hafnað, velferð innflytjenda tryggð og börnum á flótta veitt skjól. Samfélag sem einkennist af mannúð og sjálfbærni, jöfnuði og frelsi. Þannig samfélag sköpum við ekki nema með réttlátari skattbyrði, minni ójöfnuði, heilbrigðari og fjölbreyttari vinnumarkaði.“
Sagði að frjálshyggjan væri dauð
Í ræðu sinni sagði Logi einnig að sjaldan eða aldrei hefði mikilvægi ríkisvaldsins og sterkrar almannaþjónustu birst jafn skýrt og í kórónuveirufaraldrinum. „Fullyrðingar hægrimanna um að reglulítill markaður greiði sjálfur úr öllum vandamálum og skili réttmætum gæðum til almennings dæma sig nú endanlega sjálfar.“
Íslendingar stæðu andspænis gríðarlega flóknum verkefnum sem yrðu ekki öll leyst á stuttum tíma. „En fyrsta skrefið er að skipta um kúrs, snúa skútunni frá hægri og hrista af okkur gamaldags kreddur um það hvernig ríkisfjármál virka og hvernig verðmæti verða til.“
Lausnir jafnaðarstefnunnar, sem byggja á samspili opinberra umsvifa og einkaframtaks, væru mikilvægastar í baráttunni við faraldurinn. Hann boðaði svo að Samfylkingin myndi leggja fram, á næstu dögum, heildstæða áætlun um hvernig Ísland getur brotist út úr atvinnuleysiskreppunni.
Á meðal megináhersla þar yrðu stórauknar aðgerðir í baráttunni gegn hamfarahlýnun. „Við núverandi aðstæður dugar nefnilega ekkert minna en raunveruleg græn atvinnubylting.“