Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að áhersla verði lögð á að endurreisa störf í einkageiranum, sem hann segir að haldi velferðarkerfinu uppi. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar vill hins vegar að gengið sé lengra í innviðauppbyggingu og komið sé í veg fyrir undirmönnun hjá hinu opinbera.
Þetta kom fram í Silfrinu á RÚV í dag, þar sem Bjarni og Logi ræddu efnahagsstöðuna og nýútgefið fjárlagafrumvarp.
Sýnidæmi um mikilvægi einkaframtaksins
Samkvæmt Bjarna hefur núverandi kreppa, sem orsakaðist vegna tapaðra starfa í einkageiranum, verið sýnidæmi um það hversu miklu máli einkaframtakið skipti.
„Það voru störfin í einkageiranum sem héldu uppi öllum þessum gæðum í opinberri þjónustu sem við höfum haldið undanfarin ár. Án þessara starfa höfum við ekki efni á að reka opinbera kerfið eins og við höfum verið að gera það,“ sagði Bjarni í viðtalinu.
Aðspurður hvort hann sæi sóun í opinbera geiranum sagði ráðherrann að dæmi um það væru endalaus. Þeirra á meðal nefndi hann opinber innkaup og sagði að sóunin hefði verið blóðug þar sem upplýsingar hefðu ekki verið nýttar til þess að taka hagkvæmari aðgerðir.
Vill stöðva undirmönnun hins opinbera
Logi sagði það hins vegar vera galla í fjárlögunum að þau væru ekki nógu róttæk. „Við erum í stórkostlegri innviðaskuld og það þarf að vinna hana upp. Á sama tíma er ekki komið nóg til móts við sveitarfélögin. Það er beinlínis skorið niður hjá þeim sumum og þær aðgerðir sem hafa verið boðaðar of litlar og það mun gera þeim erfitt fyrir… að ráðast í fjárfestingar,“ sagði hann.
Logi var þó sammála um að skapa þyrfti vinnu í einkageiranum, en hann sagði líka að stöðva þyrfti undirmönnun í opinbera geiranum. Einnig bætti hann við að ráðast þyrfti í miklu stærri fjárfestingaráætlun til grænnar framtíðar.
Bjarni sagði Samfylkingunni aldrei detta neitt annað í hug í samfélaginu en að fjölga opinberum störfum og að ekki væri ráðrúm til þess að hafa þau verði störfin í einkageiranum ekki vernduð.
Hann tilkynnti svo átak til að hvetja til fjárfestinga í einkageiranum með skattalegum ívilnunum fyrir atvinnulífið og skattalegar fyrningar vegna fjárfestinga á næstunni, en hann sagði að þær væru ekki í fjárlögum þar sem þær hefðu ekki bein áhrif á afkomu ríkissjóðs á næsta ári.