„Það má segja að Ríkisútvarpið sé einstofna, stórt tré sem er með ræturnar í ríkissjóði og lögum um innheimtu gjaldsins en allir aðrir fjölmiðlar séu eins og litlar plöntur sem fá ekki á sig sólina af því að Ríkisútvarpið er með svo langar greinar. Þær plöntur eru aðeins að fölna og margar hverjar að visna algerlega í skugga Ríkisútvarpsins.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði ráðherrann meðal annars hvort sú hugmynd kæmi til greina að leyfa greiðendum nefskatts vegna RÚV að ráðstafa tilteknu hlutfalli af honum til einkarekinna miðla.
„Hér vil ég gera stöðu fjölmiðla, sérstaklega einkarekinna, að umtalsefni. Í dag liggur fyrir hjá hæstvirtum fjármálaráðherra sem flestum einstaklingum og fyrirtækjum ber að greiða til Ríkisútvarpsins með millilendingu í ríkissjóði úr 17.900 krónum á ári í 18.300 krónur. Þetta er það sem í daglegu tali er kallaður nefskatturinn til RÚV,“ sagði Bergþór í fyrirspurn sinni.
Hann benti á að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar væri reiknað með að útgjöld til Ríkisútvarpsins yrði um rúmar 4.500 þúsund milljónir og ofan á það bættust tekjur Ríkisútvarpsins af auglýsingum og kostun. „Á sama tíma er lagt til að hartnær fjögur hundruð milljónir fari til einkarekinna miðla í gegnum umdeilanlegt styrkjakerfi sem meðal annars mun kalla fram aukið opinbert eftirlit með fjölmiðlum.“
Bergþór spurði fjármálaráðherra hver afstaða hans væri til þess að leyfa greiðendum nefskattsins að ráðstafa tilteknu hlutfalli af nefskatti sínum til einkarekinna miðla. „Þetta væri til dæmis hægt að gera á skattaskýrslu hvers árs og ef að við byrjuðum til að mynda á því að gjaldendur fengu að ráðstafa 10 prósent af skattstofni sínum til einkarekinna miðla, þá væri það rétt um 450 milljónir á ári – sem fer býsna nærri þeirri tölu sem á með frumvarpi hæstvirtum menntamálaráðherra að færa til einkarekinna miðla. Þarna væri hægt að hugsa sér sem svo sem dæmi þar sem menn gætu valið þrjá miðla og þá gæti einhver valið að styðja Fréttablaðið, einhver Morgunblaðið, einhver DV, einhver Stundina, einhver Kjarnann, einhver Fótbolta.net og svo framvegis.“
Hann spurði Bjarna enn fremur hvort hann sæi þessa leið sem færa til þess að styðja við innlenda einkarekna fjölmiðla með einföldum hætti.
Hugmyndin vekur upp margar grundvallarspurningar um RÚV
Bjarni svaraði og sagði að honum fyndist þetta vera áhugaverð hugmynd en að hún væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar. „Ég held að hún ein og sér myndi vekja upp margar grundvallarspurningar sem við þyrftum fyrst að taka afstöðu til, nefnilega spurninguna: Eigum við að reka almannaútvarp og hvernig eigum við að fjármagna það? Það er ágætt að fá þá umræðu. Sitt sýnist hverjum um umfang þeirrar starfsemi, þótt mér þyki sem breið samstaða sé um að almannaútvarp þurfi að gegna ákveðnu lykilhlutverki. Þetta snýst sömuleiðis ekki bara um grundvallarspurninguna hvort við eigum að reka slíkt útvarp heldur líka hvernig við eigum að gera það og fjármagna það.“
Hann sagðist hafa verið þeirrar skoðunar að ákveðið rof hefði átt sér stað í þeirri tengingu sem Bergþór nefndi, „sem er framlag hvers og eins einstaklings og lögaðila á Íslandi til þessa reksturs, með því að við hættum að innheimta gjaldið sérstaklega. Það voru eflaust ýmsar praktískar ástæður fyrir því en ég held að það hafi slitnað þetta samband sem oft er mikilvægt að sé til staðar, að fólk viti að það sé að leggja eitthvað af mörkum, borgar í hverjum mánuði og svo framvegis. Ég held að það sé líka galli á þessu fyrirkomulagi sem við erum með núna. Ef hér er einhver hagsveifla og það fjölgar til dæmis fyrirtækjum í landinu, þá aukast sjálfkrafa framlögin til Ríkisútvarpsins án þess að það sé einhver rökbundin nauðsyn til þess eða hægt sé að færa fyrir því rök að það eitt að stofnuð eru 1.000 ný fyrirtæki eða 1.000 nýjar kennitölur á fyrirtækjaskrá eigi að leiða til þess að verkefnum Ríkisútvarpsins fjölgi einhvern veginn eða verði umfangsmeiri. Þarna held ég að sé ákveðin rökleysa í fyrirkomulaginu.“
Eftir sæti að það þyrfti að halda áfram að ræða þá stöðu sem Ríkisútvarpið er í gagnvart fjölmiðlamarkaðnum að öðru leyti og telur Bjarni að auglýsingarnar séu stór þáttur sem þurfi að taka til frekari umræðu.
Spurði hvort hægt væri að minnka umsvif RÚV með einhverjum hætti
Bergþór lýsti yfir ánægðu með vilja fjármálaráðherra til þess að opna þetta samtal og þessa umræðu. „Það eru auðvitað margar leiðir til þess að styðja við innlenda einkarekna fjölmiðla. Ein þeirra væri til dæmis að afnema virðisaukaskatt af áskriftartekjum svo hér sé einu dæmi kastað fram. Það væri hægt að eiga við tryggingargjald starfsmanna og fleira slíkt.
En aðeins varðandi svar hæstvirts ráðherra þá er staðan auðvitað þannig að með núverandi tekjum af nefskatti og síðan auglýsinga- og kostunartekjum sjáum við að Ríkisútvarpið hefur til ráðstöfunar einhvers staðar í námunda við 6.000 milljónir, sýnist mér, á næsta ári. Slík tala kippir auðvitað úr sambandi öllum sanngjörnum samkeppnissjónarmiðum, ef svo má segja, gagnvart hinum einkareknu miðlum sem standa í slagsmálum á þessum markaði,“ sagði hann.
Þá spurði Bergþór ráðherrann, ef sjónarmiðið væri að hér á landi ætti að reka almannaútvarp með einhverjum hætti, hvort hann teldi ekki væri hægt að minnka það að einhverju marki frá því sem væri í dag.
Stígur varla inn á frjálsan fjölmiðil án þess að menn spyrji hvort ekki sé hægt að auka andrými frjálsu fjölmiðlanna
Bjarni kom aftur í pontu og sagði að vissulega væri Ríkisútvarpið alls ekki hafið yfir gagnrýni hvað varðar umfangið í starfseminni.
„Það má segja að Ríkisútvarpið sé einstofna, stórt tré sem er með ræturnar í ríkissjóði og lögum um innheimtu gjaldsins en allir aðrir fjölmiðlar séu eins og litlar plöntur sem fá ekki á sig sólina af því að Ríkisútvarpið er með svo langar greinar. Þær plöntur eru aðeins að fölna og margar hverjar að visna algerlega í skugga Ríkisútvarpsins.
Ég held því að mikið rúm sé fyrir umræðu um auglýsingamarkaðinn sem er meginuppspretta tekjulindar fyrir einkarekna fjölmiðla. Maður stígur varla inn á frjálsan fjölmiðil án þess að menn hefji við mann umræðu, áður en útvarpsþátturinn byrjar, eða hvað það nú er, um það hvort ekki sé hægt að auka andrými frjálsu fjölmiðlanna til að bjarga sér sjálfum. Það er nú mjög í anda sjálfstæðisstefnunnar að hjálpa mönnum til sjálfshjálpar,“ sagði hann.