Hækkun á hitastigi sjávar um 2-3 gráður virðist líkleg til að valda stórfelldum breytingum á útbreiðslu fiskistofna á Íslandsmiðum, samkvæmt nýrri rannsókn vísindafólks við Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnun sem birtist í vísindaritinu Scientific Reports 5. október.
Mikilvægar nytjategundir sem eru viðkvæmar fyrir hitastigsbreytingum gætu hreinlega látið sig hverfa af Íslandsmiðum, segir Ragnhildur Birna Stefánsdóttir líffræðingur og einn höfunda greinarinnar, í samtali við Kjarnann.
Það er þó margt á huldu um það hvernig hitastig sjávar umhverfis Íslands mun breytast á næstu árum og áratugum. Breytingarnar á Íslandsmiðum eru nefnilega óútreiknanlegri en víða annarsstaðar, vegna þeirra köldu og hlýju hafstrauma sem mætast nærri landinu, segir Ragnhildur.
Í tímaritsgreininni, sem ber heitið „Shifting fish distributions in warming sub-Arctic oceans“, voru áhrif umhverfisbreytinga í hafinu umhverfis Ísland á árunum 1996-2018 á útbreiðslu fisktegunda metin. Í ljós kom að einnar gráðu hitastigshækkun við hafbotninn leiddi til þess að 72 prósent þeirra 82 fisktegunda sem skoðaðar voru í rannsókninni færðu sig talsvert til.
Breytingarnar á útbreiðslunni voru mest áberandi hjá tegundum grunnslóðarinnar og þá sérstaklega hlýsjávartegundum og þeim sem lifa við þröngt hitastigsbil. Dæmi var um að tilfærsla tegundar næmi 326 kílómetrum og 7 prósent tegundanna færðu sig um meira en 100 kílómetra, en meðaltalstilfærslan var 38 kílómetrar.
Rannsóknin byggir á BS-verkefni Ragnhildar í líffræði, sem unnið var undir handleiðslu Stevens E. Campana, sem er prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands. Þau þróuðuðu hugmyndina lengra í sameiningu. „Við fengum svo til liðs við okkur Klöru [Jakobsdóttur] og Jón [Sólmundsson] hjá Hafrannsóknastofnun og fengum þeirra „input“ í þetta samstarfsverkefni,“ segir Ragnhildur.
Það er þekkt staðreynd að fiskistofnar færi sig til með breytingum á sjávarhita, en Ragnhildur segir að lagt hafi verið upp með að skoða hvaða áhrif breytingarnar væru að hafa á stofna á Íslandsmiðum og hvort það væru hitabreytingar eða mögulega breytingar á stofnstærð eða eitthvað annað sem hefði áhrif. Einnig langaði rannsakendunum að skoða hvaða stefnu tegundirnar myndu taka.
„Við vorum búin að reikna með að margar tegundir myndu færa sig norðar í kaldari sjó þegar sjórinn færi að hlýna sunnar,“ segir Ragnhildur, en niðurstöðurnar sýndu að langflestar tegundir sem á annað borð færðust þokuðust til vesturs, norðvesturs eða norðurs.
Líklegt er að hitastig sjávar muni halda áfram að hækka á næstu árum og áratugum, en vegna landfræðilegrar legu Íslands og síbreytilegra haffræðilegra skilyrða hér gætu áhrifin á Íslandsmiðum orðið hægari, breytilegri og síður fyrirsjáanlegri en á öðrum svæðum, þar sem hitastigsbreytingarnar hafa verið línulegri en hér.
„Ef við erum að horfa á eina gráðu eru 72 prósent tegunda að færa sig að meðaltali um 38 kílómetra, en hækkun um 2-3 gráður myndi breyta mjög miklu,“ segir Ragnhildur, en slíkar breytingar myndu sennilega leiða til þess að nýir landnemar kæmu að Íslandsmiðum og einnig er möguleiki á að mikilvægar nytjategundir myndu láta sig hverfa.
Ragnhildur nefnir sem dæmi að tegundir á borð við löngu, ýsu, keilu, urrara, tvíráku og mjóra séu með mjög greinilega tilfærslu. Þetta er því eitthvað sem þarf að hafa augun á til framtíðar, en Ragnhildur segir þróun sjávarhitans hér mjög óútreiknanlega, vegna þeirra köldu og hlýju hafstrauma sem hafa áhrif.
Ekki endilega neikvætt fyrir sjávarútveginn
En myndu slíkar breytingar ekki hafa áhrif á sjávarútveginn til framtíðar, spyr blaðamaður, ef til vill í smá áhyggjutóni. „Algjörlega,“ svarar Ragnhildur, en bendir á að afleiðingar af tilfærslu stofna þurfi ekki endilega að vera neikvæðar.„Á móti gætu komið aðrar nytjategundir sem núna veiðast annar staðar. Við gætum fengið einhverjar frábærar tegundir sem gætu skapað verðmæti,“ segir Ragnhildur og bætir við að makríllinn sé frábært dæmi um slíkan landnema – flökkufisk úr suðaustri sem nú er orðinn mikilvægur hluti af heildarverðmæti sjávaraflans á Íslands.