Svanhildur Hólm Valsdóttir, sem starfað hefur sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, árum saman hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Í tilkynningu sem birt er á vef Viðskiptaráðs er haft eftir Ara Fenger, formanni ráðsins, að það é afar spennt fyrir því að fá Svanhildi til liðs við sig. „Hún hefur mikla reynslu og þekkingu á efnahags- og viðskiptalífinu sem er dýrmætt á þessum víðsjárverðu tímum. Viðskiptaráð er mikilvæg rödd íslensks atvinnulífs og hjá okkur eru spennandi verkefni framundan, sem Svanhildur mun koma inn í af krafti.“
Svanhildur, sem er fædd árið 1974, er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og er auk þess með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, mun hefja störf 1.desember næstkomandi.
Hún hafði áður sinnt félagsstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og var í stjórn og svo annar varaformaður SUS árin 1997 til 2001.
Svanhildur var á meðal þeirra sem sóttu um starf útvarpsstjóra RÚV þegar það var auglýst á síðasta ári. Stefán Eiríksson var ráðinn í það starf.
Hún tekur við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs af Ástu Sigríði Fjeldsted, sem réð sig sem framkvæmdastjóra Krónunnar fyrr á þessu ári og hóf störf þar 1. október síðastliðinn. Ásta Sigríður hafði verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs frá árinu 2017.