Í nóvember í fyrra, þegar íslenskt samfélag var að vinna úr þeim fréttum sem þá nýlega höfðu borist af starfsemi Samherja í Namibíu í umfjöllunum Kveiks og Stundarinnar, settist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir niður og kom sér saman um aðgerðalista til þess að auka traust á íslensku atvinnulífi.
Aðgerðirnar voru í sjö liðum, en ein þeirra var sú að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra myndi hafa frumkvæði að því að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) myndi vinna úttekt á „viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum.“
Á grundvelli úttektarinnar átti FAO svo að vinna „tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti,“ samkvæmt því sem sagði í aðgerðalista ríkisstjórnarinnar.
Verkið verður unnið í tengslum við annað verkefni
Lítið hefur heyrst af þessari boðuðu úttekt síðan þá, en í svari atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um stöðu málsins segir að búið sé að „móta verkefnið í samvinnu með FAO“ og að búið sé að „ná niðurstöðu með FAO varðandi ýmis formsatriði í þessu sambandi.“
Í svarinu segir einnig að úttektin sem Ísland hefur frumkvæði að verði unnin í tengslum við annað verkefni sem er þegar í gangi hjá stofnuninni, sem muni einfalda stjórnunarvinnu í kringum verkefnið. Verið sé að „ganga frá samningum við FAO um verkið og kostun Íslands á því.“
Í tilkynningu stjórnvalda í fyrra sagði að verkefnið sem Kristján Þór myndi eiga frumkvæði að myndi falla vel að hlutverki stofnunarinnar, þar sem FAO væri stærsta alþjóðlega stofnunin sem sinnti reglubundnu starfi hvað varðaði aðgerðir til að bæta stjórn fiskveiða og þróun sjávarútvegs á heimsvísu. Á vettvangi stofnunarinnar hefðu þannig verið gerðir alþjóðasamningar m.a. til að takast á við ólöglegar veiðar og bæta stjórn og upplýsingagjöf með fiskveiðum.
Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra yfirmaður hjá stofnuninni
Ísland á fulltrúa í æðstu lögum FAO, en Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármála- og sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, er aðstoðarframkvæmdarstjóri á fiskveiðisviði stofnunarinnar.
Árni ræddi úttektina sem ríkisstjórnin sagðist ætla að leggja til í samtali við Vísi í fyrra og sagði þá „alltaf gott“ þegar aðildarþjóðirnar hefðu frumkvæði að uppbyggilegum aðgerðum og að spilling væri einn helsti þröskuldur þróunar mjög víða í heiminum.
Spurður hvað hann teldi að úttektin tæki langan tíma sagði Árni að um það væri útilokað að segja. „Ég geri ekki ráð fyrir að málinu verði lokið á einu ári en að hvað sé rétt og hægt að gera verði ljóst á þó nokkuð skemmri tíma,“ sagði Árni Mathiesen.