„Það er táknrænt að þegar stjórnvöld komast ekki lengur upp með það að sópa nýju stjórnarskránni undir teppið þá beinlínis háþrýstiþvo þau burt sannleikann um vanvirðingu þeirra við þjóðarviljann.“
Þetta sagði þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Vísar þingmaðurinn í þá ákvörðun stjórnvalda að þvo vegglistaverk, sem málað var á vegg við bílastæði milli Sölvhólsvegar og Skúlagötu, tveimur dögum eftir að verkið var fullklárað. Áletrunin „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ sem máluð var á vegginn er nú horfin.
Jón Þór benti á að veggur sem staðið hefur óáreittur árum saman, þakinn veggjakroti, væri „skyndilega orðinn forgangsverkefni í Stjórnarráðinu. Það hefur ekki hvarflað að stjórnvöldum eina einustu sekúndu að hreinsa vegginn. Það þurfti ekki nema eina saklausa spurningu: Hvar er nýja stjórnarskráin? Hvar er hún?“ spurði hann.
Telur forsætisráðherra skulda þjóðinni útskýringar
Þá sagði að Jón Þór að Feneyjanefnd Evrópuráðsins hefði skilað um daginn áliti á þeim „slitróttu breytingum á stjórnarskránni sem hæstvirtur forsætisráðherra ætlar að leggja til. Þar er lýðræðislegu ferli við gerð tillagna stjórnlagaráðs sérstaklega fagnað og sagt berum orðum að ríkisstjórnin verði að útskýra mál sitt ítarlega ef bregða á út frá þeirri leið. Ekki með því að segja bara að þeim finnist eitthvað annað heppilegra heldur þarf að útskýra efnislega af hverju tillögur stjórnlagaráðs eru þeim óþægilegar, hvað það er við lýðræðislegustu stjórnarskrárritun mannkynssögunnar frá þjóðfundinum 2010 til þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 sem er þeim á móti skapi.“
Hann telur að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skuldi þjóðinni augljósar skýrar og sannfærandi útskýringar á leið sinni og ástæðu þess að vikið sé í veigamiklum atriðum frá tillögum stjórnlagaráðs sem samþykktar voru í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. „Annars getið þið, kjósendur, tekið upp kjörseðilinn eftir ár og spúlað út af Alþingi í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá sem virða ekki ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu ykkar,“ sagði hanni.
Ekki allt veggjakrotið þvegið – einungis spurningin „Hvar er nýja stjórnarskráin?“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerði málið einnig að umræðuefni í ræðu sinni á þinginu í dag. Vísaði hann í frétt á Vísi frá því fyrr í dag þar sem segir að rekstrarfélagi Stjórnarráðsins hafi borist ábending frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um áletrun sem máluð hafði verið á vegg við húsnæði ráðuneytisins um helgina. Þar er haft eftir framkvæmdastjóra rekstrarfélags Stjórnarráðsins:
„Við tókum við núna síðla sumars og gerðum þá samning við ráðuneytið um að sjá um húsnæðið og lóðina í kring og í þeim samningi felist að þrífa allt óumbeðið veggjakrot. Og þetta var fyrsta veggjakrotið sem kom eftir að við tókum við.“
„Við fengum bara ábendingu frá ráðuneytinu um að þarna væri búið að krota. Við erum með eftirlitskerfi og öryggisvörslu í kringum húsin. Þannig að þetta bara kom í ljós, að búið væri að mála á vegginn.“
Björn Leví sagði á þinginu að veggjakrotið hefði hins vegar ekki verið þrifið, bara spurningin um hvar nýja stjórnarskráin væri. Það sæist á mynd sem tekin var stuttu áður.
„Það er fullt af veggjakroti þarna rétt við hliðina sem einhvern veginn fór algerlega fram hjá þessum góðu háþrýstiþvottaspúlurum. Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta hafi verið fyrsta veggjakrotið sem þeir tóku eftir. Ef þeir hefðu litið örlítið lengra til vinstri hefðu þeir séð fullt af veggjakroti,“ benti hann á.
Hann lauk ræðu sinni á því að segja að Íslendingar væru „dálítið í þeirri aðstöðu að ríkisstjórnin er veggur sem stendur í vegi fyrir breytingum á stjórnarskrá samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil bara spyrja þessarar einföldu spurningar: Af hverju er ekki búið að spúla þeim vegg í burtu?“