Tæplega 60 prósent landsmanna telja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá MMR sem framkvæmd var dagana 10.-23. september, en 25 prósent landsmanna telja það lítilvægt.
Hlutfall þeirra sem telja mjög mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá er nú 40 prósent, eykst um 8 prósentustig á milli kannana MMR og hefur aldrei áður mælst jafn hátt, en rannsóknafyrirtækið hefur spurt almenning þessarar sömu spurningar reglulega frá því í september árið 2017.
Tekið skal fram hér að spurningin sem lögð er fyrir í könnun MMR hljóðar svona: „Hversu mikilvægt eða lítilvægt þykir þér að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili?“.
Fólk er þannig ekki spurt beint um afstöðu til þess með hvaða hætti endurskoðun stjórnarskrárinnar ætti að fara fram, en það er umdeilt mál á stjórnmálasviðinu, eins og síðustu ár.
Frumvörp til endurskoðunar stjórnarskrár í áföngum eru nú til meðferðar á Alþingi, en yfir 30 þúsund undirskriftum almennings hefur verið safnað til stuðnings því að sú stjórnarskrá sem Íslendingar kusu um í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykktu með 2/3 hlutum greiddra atkvæða árið 2012 verði lögfest.
Stuðningur ungs fólks við nýja stjórnarskrá vex mikið
Samkvæmt könnuninni er konum meira í mun um það en körlum að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu, en 67 prósent kvenna sögðust telja það mikilvægt og 51 prósent karla.
Í fyrri könnunum MMR um mikilvægi þess að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá hafa elstu aldurshóparnir lagt mesta áherslu á málefnið. Svo er einnig nú, en 50 prósent þeirra sem eru yfir 68 ára aldri telja það mjög mikilvægt.
Mikil breyting verður hins vegar á yngsta aldurshópnum, en hlutfall þeirra sem eru á aldrinum 18-29 ára og telja mjög mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá fór úr 24 prósentum og upp í 46 prósent í þessari nýjustu könnun.
23 prósent á aldrinum 18-29 ára til viðbótar sögðu málið frekar mikilvægt og því er hlutfall þeirra sem telja endurskoðun stjórnarskrár mikilvægt mál 69 prósent í yngsta aldurshópnum.
Fjöldi þeirra sem töldu endurnýjun stjórnarskrár mjög mikilvæga jókst bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Samanlagður fjöldi þeirra sem töldu frekar eða mjög mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili mældist nú 62 prósent á höfuðborgarsvæðinu og 52 prósent utan höfuðborgarsvæðisins.
Alls svöruðu 2.043 einstaklingar 18 ára og eldri könnun MMR og voru þeir valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Um netkönnun var að ræða, sem framkvæmd var dagana 10.-23. september, eins og áður sagði.