Launaþjófnaður sívaxandi vandamál – „Þessu verður að linna“

Efling þrýstir nú á að launaþjófnaður atvinnurekenda gagnvart launafólki verði gerður refsiverður á Íslandi – og hvetur félagið stjórnvöld til að standa við gefin fyrirheit.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Auglýsing

Efling hefur hrundið af stað herferð til að þrýsta á um að launaþjófnaður atvinnurekenda gagnvart launafólki verði gerður refsiverður á Íslandi. Í tilkynningu frá stéttarfélaginu segir að launaþjófnaður sé sívaxandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði og að hann komi harðast niður á láglaunafólki.

Þolinmæði Eflingar er á þrotum, að því er fram kemur í stöðuuppfærslu félagsins á Facebook. „Stjórnvöld verða að standa við gefin fyrirheit um að gera launaþjófnað refsiverðan. Þegar fólk á yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir að stela samloku fyrir innan við 1.000 krónur og til stendur að sekta fólk um sextíufalda upphæð fargjalds fyrir að borga ekki í strætó er ekki nema sanngjarnt að beita fjársektum til að koma í veg fyrir mörg hundruð milljón króna árlegan launaþjófnað atvinnurekenda gagnvart lægst launaða fólkinu í landinu. Þessu verður að linna!“

Heildarkröfur Eflingar vegna vangoldinna launa Eflingarfélaga námu ríflega milljarði á síðustu fimm árum. Í tilkynningu félagsins segir að launaþjófnaður sé mun viðameira vandamál heldur en þessar tölur gefi til kynna „enda fleiri stéttarfélög sem taka við erindum félagsmanna um vangoldin laun. Auk þess leitar ekki nándar nærri allt launafólk réttar síns gagnvart atvinnurekendum af ótta við að missa vinnuna.“

Auglýsing

Kröfum fjölgað úr 200 í 700 á fimm árum

Sífellt fleira launafólk leitar eftir aðstoð stéttarfélaga við að krefja atvinnurekendur um vangoldin laun, samkvæmt Eflingu. Þannig hafi kröfum Kjaramálasviðs Eflingar fyrir hönd félagsmanna fjölgað úr 200 á ári upp í 700 á síðustu fimm árum. Að sama skapi hafi heildarupphæð krafna farið stighækkandi og numið 345 milljónum króna á síðasta ári. „Kröfur stéttarfélagsins fyrir hönd einstakra félagsmanna nema oftast á bilinu 380 til 490 þúsund krónur og langan tíma getur tekið að innheimta hverja kröfu fyrir sig. Á meðan situr launamaðurinn uppi með skaðann af því að geta ekki séð sér fyrir nauðþurftum og staðið skil á skuldbindingum eins og leigu,“ segir í tilkynningu félagsins.

Engin sekt eða bótaupphæð bætist ofan á launakröfur og því hafi atvinnurekendur engan hvata til að leiðrétta vangoldin laun hjá öðrum en þeim sem leita réttar síns. Eina leiðin til að setja þrýsting í þessum tilvikum sé að fara í mál gagnvart atvinnurekanda fyrir dómstólum og nema bætur þá oftast aðeins málskostnaði og dráttarvöxtum. Efling krefst þess að refsing vegna launaþjófnaðar nemi minnst 100 prósent af launakröfu vegna stolinna launa. Lægri sekt styðji aðeins við ábata atvinnurekenda af þjófnaði úr vösum verkafólks.

Stjórnvöld lofuðu að viðurlög yrðu sett inn í íslenska löggjöf

Enn fremur kemur fram hjá Eflingu að hvorki launaþjófnaður né önnur brot gagnvart lágmarkskjörum verkafólks séu refsiverð í íslenskri löggjöf enda þótt dæmi séu um slík viðurlög í kjarasamningum. Heimilt sé að sekta útgerðir um hátt í 600.000 krónur vegna launaundanskots í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands. Efling fór fram á að viðurlög af þessu tagi yrðu sett inn í kjarasamning sinn við Samtök atvinnulífsins veturinn 2018 til 2019. Í framhaldi af því gáfu stjórnvöld loforð um að slík viðurlög yrðu sett inn í íslenska löggjöf í yfirlýsingu undir yfirskriftinni „Stuðningur stjórnvalda við lífskjarasamningana“. Ekkert bóli þó á efndum þrátt fyrir ítrekaðar áminningar þar um.

„Á sama tíma hafa þó stjórnvöld fært inn í íslenska löggjöf ýmis konar sektarákvæði og er í því sambandi nærtækast að nefna að til stendur að sekta strætófarþega um sextíufalda upphæð fargjalds fyrir að greiða ekki fyrir staka ferð.

Efling krefst þess að stjórnvöld standi við orð sín og komi í veg fyrir að atvinnurekendur haldi áfram að seilast í laun lægst launaða fólksins á íslenskum vinnumarkaði,“ segir að lokum í tilkynningu Eflingar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent