Fjöldi fámennra stéttarfélaga hér á landi vekur upp spurningar um skilvirkni í gerð kjarasamninga. Mögulegt er að auka skilvirkni með meiri samvinnu á milli þeirra eða sameiningu félaganna, en auk þess geti það styrkt samningsstöðu þeirra.
Þetta skrifar Katrín Ólafsdóttir, dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, í grein í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom út í gær. Í henni fer hún yfir gerð kjarasamninga á Íslandi út frá nýútgefinni skýrslu Kjaratölfræðinefndar og ber hana saman við stöðuna í Danmörku.
11 sinnum minni félög
Samkvæmt greininni er mikill munur á vinnumarkaðinum í löndunum tveimur. Á meðan yfir 140 stéttarfélög eru til hér á landi á vinnumarkaði fyrir 200 þúsund manns hafa Danir einungis 112 stéttarfélög, þrátt fyrir að vinnumarkaðurinn þar í landi nemi um 3,7 milljónum manna.
Ef tekið er tillit til þess að fleiri séu meðlimir stéttarfélaga hérlendis heldur en í Danmörku fæst að íslensk stéttarfélög séu að meðaltali 11 sinnum minni heldur en þau dönsku. Hér á landi eru að meðaltali um 1.500 manns í hverju stéttarfélagi, á meðan meðalfjöldi félagsmanna nær 17 þúsundum í Danmörku.
Vægi smárra stéttarfélaga hér á landi sést enn betur ef fjöldi þeirra sem eru á kjörskrá á bak við hvern kjarasamning er skoðaður. Þar sést að meirihluti kjarasamninga sem gerðir hafa verið í yfirstandandi samningalotu hafi undir hundrað manns á kjörskrá, eða 131 af 259 samningum alls. Til samanburðar voru einungis fjórir samningar gerðir þar sem meiri en fimm þúsund manns voru á kjörskrá.
Að mati Katrínar vekur þessi fjöldi samninga sem innihalda fáa á kjörskrá upp spurningar um skilvirkni félaganna í kjarasamningsgerð. „Meiri samvinna stéttarfélaga eða sameining þeirra gæti styrkt stöðu þeirra við samningaborðið og aukið skilvirkni kjarasamninga,“ skrifar Katrín.
Hægt er að smella hér til að gerast áskrifandi að Vísbendingu.