Yfir 40 þúsund manns hafa nú ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem þess er krafist að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána.
Undirskriftasöfnuninni, sem er á vegum Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá, lýkur á morgun, mánudaginn 19. október. Upphaflegt markmið var að safna undirskriftum 25 þúsund kjósenda, en það náðist fyrir um tæpum mánuði síðan.
Kosið var um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá þann 20. október 2012. Um var að ræða alls sex spurningar en sú fyrsta var hvort viðkomandi vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Alls sögðu 64,2 prósent þeirra sem greiddu atkvæði já við þeirri spurningu. Kjörsókn var 49 prósent.