Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍU) og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) er á meðal þriggja nýrra skrifstofustjóra sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað yfir nýjar fagskrifstofur innan ráðuneytisins.
Nýtt skipurit tók þar gildi í mánuðinum og með því urðu til þrjár nýjar fagskrifstofur í stað tveggja áður; skrifstofa landbúnaðarmála, skrifstofa matvælaöryggis og fiskeldis og skrifstofa sjávarútvegsmála.
Kolbeinn Árnason, sem var framkvæmdastjóri LÍU og síðan SFS á árunum 2013-2016, verður skrifstofustjóri matvælaöryggis- og fiskeldis, Ása Þórhildur Þórðardóttir verður skrifstofustjóri landbúnaðarmála og Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir skrifstofustjóri sjávarútvegsmála.
Þau voru öll metin mjög vel hæf af ráðgefandi hæfnisnefnd, en alls bárust 93 umsóknir um störfin þrjú sem voru auglýst í júlí. Tíu einstaklingar metnir mjög vel hæfir af nefndinni sem var ráðherra til ráðgjafar í ferlinu, samkvæmt tilkynningu um þessar skipanir á vef stjórnarráðsins.
Kolbeinn er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og AMP gráðu frá IESE Business School í Barcelona. Auk áðurnefndra starfa í hagsmunagæslu hefur hann reynslu úr stjórnsýslunni. Á árum áður var hann skrifstofustjóri á tveimur skrifstofum sjávarútvegsráðuneytisins og fulltrúi þess hjá fastanefnd Íslands við Evrópusambandið í Brussel. Þá var hann einnig yfirlögfræðingur og framkvæmdastjóri lögfræðideildar skilanefndar og slitastjórnar Kaupþings. Síðustu ár hefur Kolbeinn starfað sem lögmaður og einnig setið í stjórn LBI, þrotabús gamla Landsbankans.
Ása Þórhildur er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur starfað innan stjórnarráðsins frá árinu 2011 þegar hún hóf störf í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Hún var í velferðarráðuneytinu á árunum 2014-2018 en kom til starfa í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á árinu 2018. Frá 2019 hefur Ása Þórhildur verið settur skrifstofustjóri á skrifstofu matvæla og landbúnaðar.
Áslaug Eir er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í sjávarútvegsfræði frá sama skóla, auk þess sem hún hefur lokið diplómanámi í hafrétti frá Rhodes Academy. Áslaug Eir hefur starfað hjá Fiskistofu frá árinu 2007. Frá árinu 2010 til 2013 var hún deildarstjóri hjá stofnuninni og frá 2014 hefur hún gegnt stöðu sviðsstjóra veiðieftirlits- og lögfræðisviðs og verið staðgengill fiskistofustjóra.