Kæru félagar.
Við höfum marga fjöruna sopið síðustu tvö ár og það er frekar dapurt að geta ekki hist í persónu núna, lagt á ráðin, gert upp síðustu ár og brýnt okkur fyrir það sem koma skal. Það er þó huggun harmi gegn að við getum hist í rafheimum með sameiginlega tilfinningu um hvað skiptir máli. Að horfa á þrjú hundruð nöfn spretta upp á skjá, mörg með mynd, er sýnileg áminning um að við erum fjöldahreyfing sem teygir anga sína um allt landið og inn í flestar starfsstéttir. Saman eigum við þetta magnaða afl sem er verkalýðshreyfingin. Hreyfingin okkar er eins og stórfljót, rennur í farvegi sem hefur verið mótaður í áranna rás en brýtur sér stundum leið í nýjan farveg, stundum er áin vatnsmikil svo jafnvel flæðir yfir bakkana en stundum er hún straumléttari. Ég veit ekki hvort þetta er besta myndlíkingin en ég veit að við búum yfir afli sem hægt er að líkja við náttúruafl. Krafturinn er mikill og stundum óbeislaður, á köflum eru flúðirnar svo afgerandi að það má vart greina í hvaða átt vatnið rennur. En fljótið heldur samt áfram að renna, farvegurinn markast af vatninu og markmið okkar er skýrt: bætt lífskjör og betra samfélag.
Við höfum sannarlega náð árangri síðustu tvö árin frá því við hittumst síðast. Fram að COVID í upphafi árs hafði hagur launafólks batnað töluvert. Kjarabæturnar birtust í ýmsum myndum: Lækkun vaxta, lækkun skatta, hærri laun og hærri barnabætur eru þar á meðal. Allt þetta kom til vegna baráttu okkar og þeirra samninga sem gerðir voru fyrir okkar tilstuðlan. Við verðum að muna eftir að fagna þeim árangri sem við höfum náð á meðan við heitum því að halda áfram. Og það er mikið verk óunnið. Við erum með loforð frá stjórnvöldum um að breyta lögum um lífeyrissjóðina til að tryggja betur lífeyrisréttindi launafólks. Við eigum eftir að sjá raungerast loforð um aukna vernd fyrir leigjendur, markviss skref til að afnema verðtrygginguna og ný lög gegn félagslegum undirboðum og launaþjófnaði auk aðgerða gegn mansali. Þetta er allt saman í pípunum, í sumum tilvikum bíða okkar slagir um útfærslu, en í öllum tilfellum hefur okkur þokað fram á við.
Eins og heimurinn allur fengum við risaverkefni í fangið í upphafi árs þegar heimsfaraldur skall á. Við búum í nýjum veruleika sem er ógnvekjandi og það reynir á okkur sem einstaklinga, sem hreyfingu og sem samfélag. Atvinnuleysi er eitur í okkar beinum og í gegnum tíðina höfum við lagt mikið undir í baráttunni fyrir að verja störf og afkomu fólks. Störfin eru hins vegar horfin í bili og hátt í 20 þúsund manns eru án atvinnu hér á landi. Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og okkar stóra verkefni er að takast á við það, að knýja á um vinnumarkaðsaðgerðir sem mæta þessum vanda og tryggja afkomu fólks. Að auki hefur fjöldinn allur misst tekjur vegna minnkandi starfshlutfalls, minni yfirvinnu og hlutabóta og annarra þátta. Strax í vor hlutuðumst við til um aðgerðir til að minnka skaðann; laun í sóttkví, hlutabótaleið, nýsköpun og laun á uppsagnarfresti voru hluti af þeim úrræðum sem stjórnvöld buðu sem viðbrögð við kreppunni. Í vor héldum við reyndar að bráðaúrræðin þyrftu að dekka einn til tvo mánuði og ferðaþjónustan myndi taka við sér fljótt og vel. Nú vitum við betur og þetta verður langhlaup en ekki spretthlaup. Það er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að bjóða lausnir og framtíðarsýn og í vor kynntum við stefnuskjal undir heitinu „Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða“ þar sem við vörðuðum veginn út úr kreppunni til að vernda lífskjör og framfærslu og byggja upp betra samfélag. Á krepputímum eru teknar ákvarðanir sem móta framtíðina og það er okkar að sækja fram fyrir hönd almennings í landinu og tryggja að slíkar ákvarðanir séu í þágu okkar allra. Markmið er að stuðla að nýrri atvinnusköpun og jafnara samfélagi, atvinnusköpun í sátt við umhverfið þar sem eru ekki bara búin til ný störf heldur góð störf með góðum aðbúnaði og sanngjörnum kjörum. Réttlát umskipti eru þema þessa þings og ganga út á að breytingar á atvinnuháttum vegna loftslagskrísunnar og tæknibreytinga séu réttlát gagnvart launafólki. Þótt málefnastarfi okkar sé frestað til vorsins þá eigum við að taka hugmyndafræði réttlátra umskipta með okkur inn í þennan vetur. Því nú er tíminn til að byggja upp til framtíðar og það skiptir máli hvernig það er gert.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að atvinnurekendur hafa þrýst á um launalækkanir eða kjaraskerðingar með vísan til ástandsins. Þetta sjónarmið hefur fengið hljómgrunn í fjölmiðlum og stjórnmálum og víðar í samfélaginu undir þeim formerkjum að þegar þrengi að þá verði allir að gefa eitthvað eftir. Við því er tvennt að segja: annars vegar það að launafólk hefur þegar tekið gríðarlegan skell í þessari kreppu í gegnum atvinnuleysi og kjaraskerðingar og hins vegar það að aðhaldsstefna er ekki aðeins gagnslaus á krepputímum, hún er beinlínis skaðleg. Það er ekkert sem rennir stoðum undir þá kenningu að ískaldar launafrystingar þvert á línuna séu rétta leiðin út úr kreppunni, þvert á móti.
Ef við notum sömu hagfræðina og hefur verið alls ráðandi síðustu áratugi og sumir segja að byggi á jafnvísindalegum grunni og sjálft þyngdarlögmálið þá munum við rata á hættulega braut. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nú stigið fram og ráðlagt ríkjum að ráðast ekki í aðhaldsaðgerðir en að gera fremur allt til að tryggja afkomu fólks á erfiðum tímum. Því þau ríki sem völdu niðurskurð út úr fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug síðan hafa komið hryllilega illa út úr því, bæði heilsufarslega og efnahagslega.
Þegar íhaldssömustu stofnanir heims eins og OECD og Alþjóðabankinn eru farin að leita lausna í afkomutryggingu fyrir alla og meira að segja hin árlega Davos-samkoma hinna ríku og ráðandi kallar eftir auknum jöfnuði þá ætti síðasta vígið að vera fallið. Við heyrum hins vegar enn raddir hér á landi sem vilja fara í blóðugan niðurskurð. Þetta eru oft sömu raddirnar og segja okkur að við séum öll á sama báti. Við erum það ekki og höfum aldrei verið. Fólk sem vinnur á strípuðum töxtum eða hefur misst lífsviðurværið er ekki á sama báti og fjármálaráðherra eða forstjórar. Bara engan veginn!
En hitt er ljóst og það er að sérhagsmunaöflin eru alltaf tilbúin til að stökkva á tækifærið til að hafa afkomuöryggið af fólki. Í þessu landi eru beinlínis öfl sem vilja losna við lágmarksvernd launafólks, sem telja atvinnuleysistryggingar ýta undir leti og að fólki sé fullur sómi sýndur með því að ætla því innan við 300 þúsund krónur til mánaðalegrar framfærslu. Og þetta er einmitt hættan þegar harðnar á dalnum, að réttindi verði gefin eftir og ójöfnuður aukist. Það eru margir sem vilja nýta ferðina og kreppur hafa í áranna rás aukið misrétti.
Í september síðastliðnum þegar forsendur kjarasamninganna voru undir þá voru það ekki við sem sköpuðum óvissu og ófrið. Það voru atvinnurekendur sem ætluðu að nýta ferðina til að knýja á um launalækkanir eða skerðingar. Við bárum gæfu til þess að standa saman gegn þrýstingi og atvinnurekendur urðu uppvísir að ótrúlegum vinnubrögðum í einhverskonar störukeppni sem stóð þar til stjórnvöld stigu inn og skáru atvinnurekendur úr snöru sem þeir hengdu sjálfir.
Verkalýðshreyfingin stóð sameinuð: okkar mat var að farsælast væri fyrir launafólk og samfélagið í heild að halda frið á vinnumarkaði og standa við kjarasamninga, sem við skulum muna að voru gerðir á óvissutímum í kjölfar falls wow-air og tóku mið af óvissu efnahagsástandi.
Kæru félagar,
Þessi kreppa verður ekki til að auka ójöfnuð – við munum ekki líða það að skútunni sé siglt eftir úreltum hugmyndir sem hafa skaðað vinnandi fólk um heim allan og mulið undir fjármálaöflin. Við bjóðum lausnir sem felast í að tryggja afkomu og lífsgæði allra en ekki fárra. Við vinnum okkur ekki út úr þessari kreppu með niðurskurði í velferðarkerfunum okkar eða stórfelldum kjaraskerðingum. Við vinnum okkur út úr þessu með því að sækja fram, verja kjörin og verja velferðina. Við krefjumst þess að ríkisfjármálum sé beitt af fullum þunga til að lágmarka skaðann af kreppunni. Við krefjumst þess að þeir sem eru aflögufærir leggi meira af mörkum til samfélagsins; þar get ég nefnt stórfjármagnseigendur og kvótaeigendur, ef kallað er eftir dæmum!
Við erum afar misjafnlega stödd en eins og yfirleitt gerist þá eru það einstaklingar sem síst mega við því sem kreppan bitnar harðast á. Einstaklingar sem hafa ekki sterka rödd í samfélaginu, ungt fólk, fólk af erlendum uppruna og fólk sem hefur verið á jaðri vinnumarkaðarins. Það er okkar hlutverk að ljá þeim rödd, gefa þeim pláss í umræðunni, tala þeirra máli þar sem það á við. Verkalýðshreyfingin er stofnuð til að einstaklingar þurfi ekki að berjast einir, að krafturinn og styrkurinn í fjöldanum veiti skjól og vörn og við megum aldrei missa sjónar á því. Það er erfitt að taka einn hóp út fyrir sviga því það eru mjög margir í erfiðri stöðu. Ég ætla þó að leyfa mér að minna á ábyrgð okkar gagnvart fólki af erlendum uppruna sem hefur lagt þungt lóð á vogaskálarnar síðustu ár til að auka hér lífsgæði og vinna þau verk sem þarf að vinna til að halda samfélaginu gangandi. Atvinnuleysi er sláandi hátt meðal erlendra ríkisborgara og verkalýðshreyfingunni ber að taka á því af fullum þunga. Við þau ykkar af erlendum uppruna vil ég segja, verið velkomin til landsins, verið velkomin í hreyfinguna og við erum heppin að njóta krafta ykkar á vinnumarkaði og í okkar góðu hreyfingu – í því felst styrkur fyrir okkur öll.
Kæru félagar,
Það er aldrei meiri þörf á sterkri verkalýðshreyfingu heldur en þegar völd atvinnurekenda aukast á kostnað launafólks. Við erum í þannig stöðu núna að óprúttnir atvinnurekendur geta boðið örvæntingafullu fólki laun og aðstæður sem teljast ekki boðlegar. Þá kemur það til okkar kasta að heyja baráttuna gegn félagslegum undirboðum og fyrir því að samningar séu virtir. Það þarf að vera refsivert og ekki áhættunnar virði að svína á launafólki. Við eigum enn töluvert í land þar og sú barátta stendur yfir.
Kæru félagar,
Þó að hart sé í ári núna þá munu koma betri tímar og það veltur á okkur hvernig framtíðin lítur út. Verkefnin til skamms tíma eru áframhaldandi barátta fyrir hækkun atvinnuleysisbóta, að kerfin sem launafólk á undan okkur barðist fyrir virki sem skildi þegar virkilega reynir á. Við verðum að verja þau heimili sem hafa fengið harðan skell á þessu ári og við verðum að styðja okkar félagsmenn í vörnum gegn veirunni.
Til lengri tíma skulum við muna það að þegar einhver býður einfaldar lausnir eins og að selja ríkiseignir eða „nýta einkaframtakið“ í heilbrigðisþjónustu þá skulum við ekki pissa í skóinn okkar. Þessi öfl eru komin á fullt skrið en það alversta sem við getum gert núna er að arðvæða okkar grunnstoðir. Þannig eykst misréttið og ójöfnuðurinn, þannig gerist það að fólk þarf að kaupa heilbrigði og menntun og aðeins þau sem hafa efni á því njóta. Þetta er hin stóra barátta framundan, að vernda það sem við höfum byggt upp og láta ekki eina kreppu brjóta það niður. Við skulum líka vera stórhuga og hvika hvergi í okkar kröfum um að allir njóti velferðar og lífsgæða, hvort sem það eru aldraðir eða veikir, vinnandi fólk eða fólk utan vinnumarkaðar. Við skulum byggja upp atvinnu í sátt við náttúru og umhverfi og láta tækniframfarir og framleiðni aukningu verða til góðs fyrir alla en ekki fáa.
Í daglegu amstri og átökum skulum við muna eftir stóru myndinni og að hvert og eitt okkar er lítið peð í sögubókunum en saman getum við skrifað góðan kafla. Ábyrgð okkar er mikil á tímum þar sem félagsstarfi eru skorður settar og fjöldafundir hreinlega bannaðir. Við þurfum vissulega rými til að takast á um stefnur og strauma innbyrðis, en í vetur berum við vonandi gæfu til að beina orkunni út á við, þar sem hennar er sannanlega þörf.
Ég vona að við fáum tækifæri til að hittast fljótlega í raunheimum því það sárvantar eitthvað þegar við getum ekki fundið nálægðina og sprengikraftinn í samtalinu. Þangað til verðum við að nýta tæknina og senda hlýja strauma hvert til annars yfir netheima.
Ég óska okkur öllum velfarnaðar, heilsu og baráttuanda og segi 44. þing ASÍ sett.