Gert er ráð fyrir að íbúðir í nýju borgarhverfi á Ártúnshöfða verði allt að 6.000 talsins þegar hverfið verður að fullu uppbyggt. Það eru svipað margar íbúðir og eru í öllum Grafarvogi í dag. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tillögum að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem eru nú komnar formlega í kynningu.
Í tillögunum, sem framlengja stefnu núgildandi aðalskipulags með breytingum fram til ársins 2040, segir að mótun þessa nýja borgarhluta marki mikil tímamót, að því leyti að um sé að ræða „nýja gerð hverfis í Reykjavík“, í þeirri merkingu að Ártúnshöfðinn verði í raun fyrsta heildstæða borgarhverfið í Reykjavík sem grundvallist á þeirri alþjóðlegu sýn á sjálfbæra borgarþróun sem hafi verið að mótast á síðustu árum og áratugum.
Þar segir einnig að það séu „breyttir tímar“ frá því að íbúðarhverfin í Grafarvogi voru skipulögð á hátt í 400 hektara landsvæði í lok síðustu aldar og rúmuðu um 6.000 íbúðir. Ártúnshöfðinn muni rúma svipaðan fjölda íbúða, þrátt fyrir að svæðið sé einungis um 80 hektarar að stærð, eða innan við fjórðungur af skipulögðu landrými Grafarvogs. Í tillögunni segir að líklegt sé að þessi uppbygging kalli á byggingu þriggja nýrra grunnskóla í hverfinu, en til samanburðar hafi Grafarvogurinn verið skipulagður sem heil átta skólahverfi.
Þróun þessa nýja borgarhverfis á Ártúnshöfða og í Elliðaárvogi á að verða í forgangi við uppbyggingu borgarinnar fram til ársins 2030, samkvæmt markmiðum uppfærðs aðalskipulags.
Veruleg fjölgun íbúða víða
Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir um það bil 2.800 íbúðum í nýja íbúðarhverfinu á Ártúnshöfða og er því gert ráð fyrir verulegri fjölgun íbúða miðað við fyrri stefnu. Ártúnshöfðinn er ekki eini uppbyggingarstaðurinn í borginni þar sem sú ætlan er til staðar, en áform borgaryfirvalda um fjölgun íbúða á þegar skilgreindum uppbyggingarsvæðum fyrir íbúðarbyggð og blandaða byggð hafa reglulega verið til umfjöllunar í fréttum vegna skipulagsvinnu á undanförnum árum.
Þessar breytingar eru dregnar saman í kynningu á breyttu aðalskipulagi borgarinnar. Á Kringlureitnum er til dæmis gert ráð fyrir að íbúðir geti orðið allt að 1.000 talsins í stað 150, en aukning atvinnuhúsnæðis minnkar þar að sama skapi. Á uppbyggingarreit í Skeifunni er gert ráð fyrir að íbúðir get orðið allt að 750 talsins í stað 500 áður og þar á það sama við, gert er ráð fyrir að aukning atvinnuhúsnæðis minnki á móti.
Í Knarrarvogi í nýja Vogahverfinu er svo gert ráð fyrir því að íbúðum geti fjölgað upp í allt að 600, sérstaklega vegna þess að gert er ráð fyrir því að Sæbraut verði sett í stokk á eins kílómeters kafla sem bætir hljóðvist og eykur landrými sem getur farið undir íbúðir og annað húsnæði. Í Gufunesi er ráðgert að íbúðum geti fjölgað um allt að 500 miðað við eldri stefnu, með stækkun miðsvæðis.
Um 25 ný svæði undir íbúðarbyggð boðuð
Í aðalskipulaginu eru alls yfir 100 svæði í borginni sem ætluð eru undir nýja íbúðarbyggð, en þar af eru um 25 ný svæði boðuð í þeim breytingatillögum sem nú eru lagðar fram. Þetta eru bæði smáir uppbyggingarreitir í eldri hverfum, ný skólahverfi eins og í Skerjafirði, Keldnalandi og Vogabyggð og svo nýir heilir borgarhlutar, eins og Ártúnshöfðinn og Vatnsmýrin.
Yfir 90 prósent þessara uppbyggingarsvæða eru við fyrirhugaða Borgarlínu eða aðrar öflugar almenningssamgöngur og sama hlutfall uppbyggingarsvæðanna er í göngufæri við grunnskóla. Stefna Reykjavíkurborgar er að 1.000 íbúðir verði byggðar á hverju ári að meðaltali fram til ársins 2040, í þéttri og blandaðri byggð innan núverandi vaxtarmarka borgarinnar.