Af þeim 18 þúsund sem fengu atvinnuleysisbætur í septembermánuði var tæpur helmingur þeirra yngri en 35 ára, eða um 8,500 manns, samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi ungra gæti þó verið mun hærra, þar sem atvinnulausir námsmenn eru ekki inni í tölum stofnunarinnar.
Ungir jafnaðarmenn bentu á bága stöðu ungs fólks á vinnumarkaði í umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem birtist í gær, en þar var vitnað í tölur Vinnumálastofnunar. Í umsögninni er „fálæti“ ríkisstjórnarinnar gagnvart stöðu ungs fólks á vinnumarkaði gagnrýnt, auk þess sem kallað er eftir skýrri áætlun um fjölgun starfa og hækkun bóta.
Aldursdreifing atvinnuleysisbótaþega sést vel ef tölur Vinnumálastofnunar eru notaðar samhliða tölum Hagstofu um þá sem eru starfandi eftir aldurshópum. Dreifinguna má sjá á mynd hér að neðan, en samkvæmt henni er hlutfall atvinnuleysisbótaþega nær tvöfalt hærra á meðal fólks á aldrinum 25-34 ára, heldur en á meðal þeirra sem eru á aldursbilinu 40-69 ára. Í fyrrnefnda aldurshópnum nær hlutfallið 13 prósentum, en í þeim síðarnefnda eru einungis sjö prósent vinnumarkaðarins á atvinnuleysisbótum.
Námsmenn ekki í myndinni
Ójöfn aldursdreifing á vinnumarkaði sést svo enn betur ef tekið er tillit til atvinnulausra námsmanna, en þeir koma ekki fram í tölum Vinnumálastofnunar þar sem þeir eiga ekki rétt á bótum.
Jóna Þórey Pétursdóttir, fyrrum forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, benti á að 69 prósent Íslendinga vinni venjulega með námi í nýlegum skoðanapistli á Vísi. Atvinnuleysi á meðal þeirra er einnig töluvert, samkvæmt ársfjórðungstölum Hagstofu.
Eins og sést á myndinni hér að neðan munar miklu hvort atvinnuleysi námsmanna sé tekið með í reikninginn eða ekki. Þar sem ellefu prósent af þeim sem voru undir 25 ára aldri á vinnumarkaðnum þáðu atvinnuleysisbætur á öðrum fjórðungi þessa árs, miðað við 15 prósent þeirra sem voru 25 ára eða eldri mætti áætla að atvinnuleysið hefði verið hærri í síðarnefnda hópnum.
Hins vegar, ef atvinnulausir námsmenn eru taldir með á vinnumarkaði blasir við önnur niðurstaða. Þar sést að atvinnuleysi þeirra sem eru yngri en 25 ára er rúmlega helmingi meira en hjá þeim sem eru 25 ára eða eldri, eða um 24 prósent á móti 15. Rétt er að taka það fram þó að þessar tölur eru einungis til viðmiðunar, þar sem aldursflokkar Vinnumálastofnunar og Hagstofu eru ekki nákvæmlega eins.
Uppfært kl: 09:43. Tölur í seinna grafinu voru uppfærðar