Ekki er stutt nægilega vel við sveitarfélög landsins í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, en þau hafa mörg hver verið rekin með viðvarandi halla vegna aukinna lögbundinna skuldbindinga. Verði stuðningur þeirra ekki aukinn gæti þurft að draga úr fjárfestingum eða auka við skuldir þeirra, en hvort tveggja hefði neikvæð áhrif á sjálfbærni sveitarfélaganna og ríkissjóð í framtíðinni.
Þetta er á meðal þess sem Fjármála- og áhættustýringasvið Reykjavíkurborgar skrifar í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp og þingsályktun um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem birt var í síðustu viku.
Kostnaður vaxi en tekjur ekki
Í umsögninni kemur fram að ríkið hafi í síauknum mæli aukið þjónustuskyldur borgarinnar án þess að auka fjárveitingar til hennar. Þetta hafi leitt til viðvarandi hallareksturs í lögbundnum verkefnum á sviðum velferðar- og skólamála, sem Reykjavíkurborg segir að hafi haft mikil og neikvæð áhrif á getu hennar til fjárfestinga og lántökuþörf.
Sem dæmi um þetta nefnir borgin að kostnaður við skólastarfsemi hafi aukist á síðustu árum, meðal annars vegna krafna um einsetningu og skóla án aðgreiningar, auk þess sem fjölda nemenda af erlendum uppruna hafi aukist. Einnig hafi kostnaður vegna þjónustu við fatlaða aukist vegna nýrra reglna, t.d. með lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Í hvorugum málaflokknum hafi tekjur borgarinnar þó aukist samhliða þessari kostnaðaraukningu.
Samkvæmt Reykjavíkurborg er aðaláhættan í rekstri sveitarfélaga sú að ríkið leggi á herðar þeirra meiri skyldur en þau geti fjármagnað. Enn fremur bætir hún við að fjármögnun sveitarfélaga miðað við lögbundið þjónustuhlutverk þeirra er mjög áhættusamt hér á landi, ef miðað er við önnur OECD-ríki.
Erfiðara að bregðast við kreppum
Reykjavíkurborg segist líka hafa minna svigrúm til að bregðast við tekjufalli og útgjaldaaukningu vegna efnahagskreppunnar í kjölfar kórónuveirufaraldursins heldur en ríkið, þar sem sveitarfélögin geti ekki fjármagnað sig með jafnauðveldum hætti. Einnig sé erfitt að draga úr þjónustuskyldur þeirra, þar sem þær séu ákvarðaðar með lögum.
Í umsögninni segir að tillögð fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar geri ráð fyrir því að ríkið dragi úr fjárfestingu til að mæta þessum breyttu aðstæðum. Að mati borgarinnar er það hins vegar mjög óskynsöm efnahagsstefna þar sem hún vinnur gegn yfirlýstri stefnu ríkisins um að auka við fjárfestingar hins opinbera.
Einnig vísar borgin í skýrslu greiningarfyrirtækisins Analytica, sem greindi frá því að lágt fjárfestingarstig sveitarfélaga myndi draga úr sjálfbærni þeirra.
Ef ekki ætti að ráðast í harkalegan niðurskurð þyrftu sveitarfélögin að auka lántöku, sem myndi hækka skuldahlutfall þeirra. Reykjavíkurborg bætir hér við að hækkun skuldahlutfalls sveitarfélaga geti hins vegar haft neikvæð áhrif á aðgengi þeirra að lánsfé. Þetta telur borgin einnig geta skaðað félagslega sjálfbærni sveitarfélag til lengri tíma, auk þess sem rekstur þeirra og þjónusta gæti verið skert til framtíðar.