Af þeim 842 fyrirtækjum sem Creditinfo skilgreinir sem framúrskarandi fékk 201 þeirra niðurgreidd laun fyrir starfsmenn þeirra í gegnum hlutabótaleiðina í byrjun COVID-19 faraldursins í vor. Þetta jafngildir 23 prósentum af öllum framúrskarandi fyrirtækjum, en um 16 prósent allra virkra fyrirtækja nýttu sér úrræðið.
Þetta kemur fram ef listi Creditinfo er borinn saman við lista Vinnumálastofnunar yfir þau fyrirtæki sem voru í hlutabótaleiðinni í vor.
Samkvæmt Creditinfo þurfa fyrirtæki meðal annars að vera með gott lánshæfi og hafa skilað rekstrarhagnaði síðustu þrjú ár til að vera skilgreind sem framúrskarandi, auk þess sem eiginfjárhlutfall þess þarf að hafa verið að minnsta kosti 20% síðustu þrjú árin. Rekstrar- og eignastaða þeirra byggir á ársreikningum fyrir árið 2019.
Alls voru 842 fyrirtæki skilgreind sem framúrskarandi í ár og hafði þeim fækkað um 45 frá árinu 2017. Samkvæmt Creditinfo gæti fækkunin á listanum bent til þess að kólnun hafi átt sér stað í íslensku atvinnulífi í fyrra, en fyrirtækið telur það þó vera gott merki að fækkunin sé hlutfallslega lítil og merki um að íslenskt atvinnulíf hafi staðið sterkum fótum við síðustu áramót.
Af þessum 842 fyrirtækjum voru 115 byggingarfyrirtæki, 64 ferðaþjónustufyrirtæki, auk tæplega 60 sjávarútvegsfyrirtækja og 30 vátryggingafyrirtækja. Alls voru þau tvö prósent allra virkra fyrirtækja hér á landi, sem eru þá rúmlega 41 þúsund talsins.
Samkvæmt Vinnumálastofnun nýttu um 6.700 fyrirtæki sér hlutabótaleiðina í vor, en það jafngildir 16 prósent af öllum virkum fyrirtækjum hér á landi. Af þessum fyrirtækjum skilgreinir Creditinfo 201 þeirra sem framúrskarandi. Því voru 23 prósent framúrskarandi fyrirtækja á hlutabótaleið í vor.