Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram sem áður stærsti flokkur landsins í nýrri könnun MMR. Alls segjast 21,9 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga í dag. Það er umtalsvert færri en sögðust ætla að gera það í lok september þegar að fylgi flokksins mældist 25,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því tapað 3,7 prósentustigum milli mánaða. Fylgi hans hefur ekki mælst lægra frá því áður en kórónuveirufaraldurinn skall á hérlendis. í lok febrúar.
Samfylkingin bætir mestu fylgi við sig milli mánaða og mælist nú með 15,2 prósent fylgi. Það er 2,4 prósentustigum meira en flokkurinn mældist með fyrir um mánuði.
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, mælast með 8,3 prósent fylgi. Það er lægsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með frá því í mars 2016, eða áður en að Panama-skjölin, sem leiddu til kosninga síðar á því ári, voru opinberuð. Ef kosið yrði í dag væru Vinstri græn sjöundi stærsti flokkur landsins og sá minnsti sem myndi ná inn á þing. Flokkurinn hefur tapað rúmlega helmingnum af fylgi sínu frá síðustu kosningum, þegar 16,9 prósent atkvæða féllu honum í skaut.
Næst verður kosið til Alþingi í september 2021.
Um 40 prósent myndu kjósa stjórnarflokka
Þriðji flokkurinn sem situr í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, Framsóknarflokkurinn, hressist milli mánaða og mælist nú með 10,2 prósent fylgi. Allir þrír stjórnarflokkarnir eru þó undir kjörfylgi og samanlagt mælast þeir með 40,4 prósent fylgi. Haustið 2017 fengu þeir 52,8 prósent atkvæða. Í tilfelli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eru efri vikmörk könnunarinnar einnig undir kjörfylgi.
Miðflokkurinn, sem varð til þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson klauf Framsóknarflokkinn í aðdraganda síðustu kosninga, bætir lítillega við sig frá síðustu könnun og mælist nú yfir kjörfylgi með 11,6 prósent fylgi.
Píratar dala eilítið milli mánaða, hafa sætaskipti á ný við Samfylkinguna og yrðu þriðji stærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag með 13,5 prósent atkvæða. Viðreisn myndi fá 9,7 prósent í dag, en það er nánast sama fylgi og flokkurinn mældist með í september. Samanlagt fylgi frjálslyndu flokkanna þriggja í stjórnarandstöðu mælist því nú 38,4 prósent og munurinn á þeim og stjórnarflokkunum þremur innan skekkjumarka. Það er 10,4 prósentustigum meira en þeir fengu haustið 2017.
Mörg atkvæði gætu fallið niður dauð
Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 4,6 prósent fylgi, sem tvísýnt er um að gætu skilað flokknum þingmanni, og Flokkur fólksins með 3,8 prósent. Alls 1,3 prósent aðspurðra nefndi aðra flokka í könnuninni. Miðað við þessa stöðu yrði raunverulegur möguleiki á því að tæplega tíu prósent atkvæða myndu falla niður dauð og ekki skila fulltrúa inn á þing. Það myndi þá ýkja stöðu þeirra flokka sem næðu inn umtalsvert.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 50,3 prósent, tæpu prósentustigi minna en við síðustu mælingu.
Könnunin var framkvæmd 23. - 28. október 2020 og var heildarfjöldi svarenda 933 einstaklingar, 18 ára og eldri.