Síminn hagnaðist um tæplega 1,9 milljarða króna á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2020. Það er 19,4 prósent minni hagnaður en var af rekstrinum á sama tímabili í fyrra þegar hann var rúmlega 2,3 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri félagsins.
Tekjur Símans af sjónvarpsþjónustu jukust um 13,8 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 miðað við sama tímabil í fyrra. Alls voru tekjurnar vegna sjónvarpsþjónustu 4,6 milljarðar króna á tímabilinu eða 560 milljónum krónum hærri en á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs. Auglýsingatekjur Símans vaxið um 22 prósent milli ára, sem verður að teljast ágætt í ljósi þess að kórónuveirufaraldurinn hefur valdið umtalsverðum tekjusamdrætti í auglýsingasölu flestra fjölmiðlafyrirtækja það sem af er árinu 2020.
Þá hafa tekjur af Premium-þjónustu Símans aukist um 18 prósent frá því sem þær voru á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Í kynningu á uppgjörinu kemur fram að seinkun á efni frá erlendum birgjum hafi gert störf dagskrárdeildar félagsins „flóknari“ en að línulegt áhorf hafi verið í hæstu hæðum „þökk sé Helga Björns og reiðmönnum vindanna“.
Stöðugildum fækkað um 50
Aðrir starfsþættir hafa líka þó líka gengið vel og skilað hagnaði. Þar má nefna að tekjur vegna upplýsingatækni hafa aukist um 326 milljónir króna milli ára, vörusala hefur skilað 160 milljónum krónum meira í kassann (þar af 111 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi) og tekjur vegna gagnaflutningsþjónustu hafa vaxið um 134 milljónir króna.
Á móti hafa tekjur vegna farsíma dregist saman um 198 milljónir króna og talsíma um 198 milljónir króna. Samdráttur í farsímatekjum er að uppistöðu vegna þess að reikitekjur hafa dregist saman samhliða því að ferðatakmarkanir hafa gert það að verkum að ferðamenn koma ekki lengur til landsins svo nokkru nemi. Alls telur Síminn að neikvæð áhrif af kórónuveirufaraldrinum vegna samdráttar í fjölda ferðamanna hafi minnkað tekjur um 300 milljónir króna milli ára.
Sá starfsþáttur sem skilgreindur er sem „annað“ hefur líka verið drjúgur í samdrætti, en slíkar óskilgreindar tekjur skiluðu Símanum 341 milljónum krónum meira á fyrstu níu mánuðum síðasta árs en á sama tímabili 2020.
Síminn hefur líka ráðist í umtalsverðar kostnaðarlækkanir á árinu. Þannig hefur stöðugildum hjá félaginu verið fækkað um 50 og útvistun hugbúnaðarþróunar hefur lækkað launakostnað um 300 milljónir króna á ársgrundvelli.
Arðgreiðslur og endurkaup
Stærsti einstaki hluthafi Símans eru Stoðir hf. og Jón Sigurðsson, stjórnarformaður þess fjárfestingafélags, er stjórnarformaður Símans. Aðrir stórir eigendur eru að uppistöðu íslenskir lífeyrissjóðir.
Síminn greiddi út 500 milljónir króna í arð í apríl og félagið hefur keypt eigin bréf fyrir 1,5 milljarða króna frá síðasta aðalfundi. Samtals hefur Síminn varið 65,1 prósent af hagnaði í arðgreiðslu og kaup eigin bréfa. Endurkaup á bréfum félagsins munu hefjast aftur í nóvember og verður keypt fyrir hálfan milljarð króna.