Hjálmar Jónsson, sem verið hefur formaður Blaðamannafélags Íslands frá árinu 2010, mun ekki bjóða sig fram á ný í embættið á næsta aðalfundi, sem fram fer á næsta ári. Frá þessu greindi hann á aðalfundi félagsins sem fer nú fram á Grand hótel í Reykjavík.
Aðalfundurinn átti upphaflega að fara fram í apríl en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Hjálmar var einn í framboði til formanns á fundinum í kvöld og því sjálfkjörinn, en kosið er um formennsku í Blaðamannafélaginu á hverjum aðalfundi. Áður en að Hjálmar tók við sem formaður félagsins á miklum átakafundi árið 2010 hafði hann verið framkvæmdastjóri þess í nokkur ár. Í kjölfar þess var starf framkvæmdarstjóra og formanns sameinað í eitt.
Í ræðu sinni í kvöld sagði Hjálmar að það væri „tímabært að ný kynslóð tæki við“.
Hörðustu aðgerðir í 41 ár
Blaðamannafélagið boðaði til verkfallsátaka í lok síðasta árs. Það var í fyrsta sinn í 41 ár sem að félagið boðaði til verkfallsaðgerða. Í tilefni af þessu sagði Hjálmar að komið væri að ögurstundu fyrir blaðamann og sagði í viðtali í aðdraganda verkfallsaðgerðanna að kjör blaðamanna væru „hörmuleg“.
Í lok nóvember voru greidd atkvæði um kjarasamninginn sem Samtök atvinnulífsins lögðu fram og hann kolfelldur.
Í kjölfarið voru boðaðar verkfallsaðgerðir kláraðar og þær síðustu fóru fram 6. desember.
Nýir kjarasamningar voru loks undirritaðir í mars 2020, en félagsmenn í Blaðamannafélaginu höfðu þá verið samningslausir í tæplega 15 mánuði. Sá samningur var samþykktur af félagsmönnum skömmu síðar.