Gyfli Zoega hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að góður árangur hérlendis í að sporna gegn áhrifum kórónuveirunnar sé að hluta til vegna þess að Ísland er eyja þar sem spilling er ekki talin mikil og byggð er tiltölulega dreifð, miðað við önnur lönd. Einnig kallar hann eftir „ákveðni“ stjórnvalda í sóttvarnarmálum í yfirstandandi bylgju veirunnar, þar sem strangar sóttvarnir í öðrum löndum hafi borið árangur.
Í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar ber Gylfi saman fjölda sýkinga og dauðsfalla af völdum veirunnar í 166 löndum um allan heim. Einnig reynir hann að meta hvaða þættir nái best að útskýra misgóðan árangur landanna í að bregðast við farsóttinni með línulegri aðhvarfsgreiningu.
Mörg smit en fá dauðsföll
Samkvæmt honum kemur Ísland vel út þegar dauðsföll af völdum veirunnar á höfðatölu eru skoðuð, þrátt fyrir að mörg smit hafa greinst hér miðað við í öðrum löndum, ef tekið er tillit til mannfjölda. Meðal þeirra landa sem koma verst út á heimsvísu yfir dauðsföll á hvern íbúa er Belgía, Brasilía og Bandaríkin. Í Bandaríkjunum láta 23 lífið fyrir hvern Íslending sem læst af völdum COVID-19.
Ísland með forskot
Niðurstöður aðhvarfsgreiningar Gylfa benda til þess að þéttbýli, spilling, tekjur og landfræðileg lega útskýri meira en þriðjung af mismiklum fjölda smita á milli landa. Þannig eru færri smit í eyríkjum, en fleiri smit í þéttbýlum löndum. Auk þess virðast færri smit vera í löndum þar sem stjórnvöldum er treyst.
Gylfi segir að Ísland njóti góðs af þessu í baráttunni gegn veirunni, en hér sé traust til stjórnvalda tiltölulega mikið í samanburði við önnur lönd. Einnig sé byggð strjálbýl í landinu þótt að stór meirihluti landsmanna búi í þéttbýli, sökum þess hversu dreifð byggð sé í Reykjavík.
Stjórnarfar virðist einnig útskýra stóran hluta af misgóðum árangri landa í baráttunni gegn veirunni, en að mati Gylfa gæti það verið vegna þess að lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum reynist erfiðara að taka óvinsælar ákvarðanir í sóttvörnum.
Stjórnvöld sýni ákveðni
Gylfi bætir einnig við að eyríkjum sem hafa strangar sóttvarnir á landamærum sínum, líkt og Ástralíu og Nýja-Sjálandi, gengur töluvert betur en öðrum löndum í að bregðast gegn áhrifum veirunnar, þrátt fyrir að tekið sé tillit til allra annarra áðurgreindra þátta.
Samkvæmt honum er sennilegt að fleiri líti til þessara landa í yfirstandandi bylgju faraldursins svo að hægt verði að ná faraldrinum niður fyrir jól. „Líklegt er að Íslendingar væru því fylgjandi að gripið verði til harkalegri aðgerða til skamms tíma innan lands...til þess að skólahald geti aftur orðið eðlilegt, fjölskyldur og vinir hist að nýju, verslun eflst fyrir jólin og landsmenn haldið gleðileg jól,“ skrifar Gylfi í greininni sinni. „Vonandi geta okkar lýðræðislega kjörnu stjórnvöld sýnt ákveðni svo okkur geti aftur farið að líða vel.“
Hægt er að gerast áskrifandi Vísbendingar með því að smella hér