Vörusala verslana og vöruhúsa Haga, stærsta smásala landsins, jókst um ellefu prósent á fyrri helmingi rekstrarárs félagsins, sem er frábrugðið flestum öðrum þar sem það hefst í byrjun mars og lýkur í lok febrúar, miðað við sama tímabil í fyrra. Stærstu einingarnar þar eru Bónus, sem rekur 31 verslun um allt land, Hagkaup, sem rekur átta verslanir og vöruhúsin Aðföng og Bananar.
Alls seldur verslanir og vöruhús Haga vörur fyrir 43,4 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins, sem er 4,2 milljörðum krónum meira en í fyrra. Á sama tíma geisaði kórónuveirufaraldur á Íslandi með tilheyrandi efnahagssamdrætti.
Hagar fundu þó meira fyrir faraldrinum í eldsneytissöluhluta starfseminnar, Ólís. Þar dróst vörusalan saman um 21 prósent, eða 4,4 milljarða króna milli ára. Má rekja þann samdrátt til fækkunar ferðamanna hérlendis og annarra áhrifa af ferðatakmörkunum. Betri afkoma verslanahluta Haga náði því ekki að vega að öllu leyti upp þann mótvind sem varð í rekstri Olís. Þar skeikaði um 200 milljónum króna.
Hagnaður Haga á fyrri helmingi rekstrarárs félagsins nam 1,2 milljörðum króna, sem er hálfum milljarði króna minni hagnaður en var á sama tímabili í fyrra.
Starfslok forstjóra kostuðu 86,4 milljónir
Launakostnaður Haga hækkaði um fimm prósent milli ára sem má að hluta rekja til starfslokagreiðslna og lotunar á samningsbundnum starfslokakostnaði.
Finnur lét af störfum 30. júní síðastliðinn. Við starfi hans tók Finnur Oddsson.
Í árshlutareikningi Haga kemur fram að heildaráhrif vegna starfslokagreiðslna og lotunar á samningsbundnum starfslokakostnaði hafi numið um 150 milljónum króna á tímabilinu. Þar af voru 86,4 milljónir króna vegna starfsloka fyrrverandi forstjóra.
Annar rekstrarkostnaður Haga lækkar hins vegar á milli ára.
Ætla ekki að greiða arð
Arðgreiðslustefna Haga er þannig að stefnt er á að félagið greiði hluthöfum sínum árlegan arð, sem nemi að lágmarki 5 prósent hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Að kaupir félagið eigin bréf og fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi sinni.
Þrátt fyrir þessa yfirlýstu stefnu hefur stjórn Haga ákveðið ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna reikningsársins 2019/20. Ástæða þess að vikið er frá arðgreiðslustefnu félagsins er vegna þeirrar „óvissu sem nú ríkir um efnahagshorfur í kjölfar COVID-19 faraldursins.“
Endurgreiddu 36 milljónir
Stjórn Haga ákvað í 8. maí síðastliðinn að endurgreiða Vinnumálastofnun þann kostnað sem féll til vegna starfsfólks dótturfyrirtækja Haga sem nýttu sér hlutabótaleiðina í aprílmánuði, en félagið hafði verið gagnrýnt fyrir að kaupa eigin hlutabréf og færa þannig fé til hluthafa sinna á sama tíma og félagið nýtir hlutabótaúrræði stjórnvalda.
Starfsmenn Zöru, Útilífs og veitingasölu Olís höfðu verið í skertu starfshlutfalli, en því starfsfólki var boðið að fara aftur í það starfshlutfall sem áður var, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Á þessum tímapunkti er betur hægt að sjá þau áhrif sem faraldurinn mun hafa á félagið í heild og eru þau minni en óttast var í upphafi. Nú telst því rétt að endurgreiða þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun greiddi til starfsfólks Haga í aprílmánuði,“ sagði í tilkynningu félagsins, en þar kemur fram að endurgreiðslan nemi um 36 milljónum króna.