Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fyrrverandi formaður Vinstri grænna, mun ekki gefa kost á sér í þingkosningunum á næsta ári. Þar með mun nýr oddviti leiða framboð Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi haustið 2021.
Þetta kom fram í máli Steingríms á fundi kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis í dag. Í tilkynningu frá Vinstri grænum segir að Steingrímur hætti sáttur og mjög stoltur af árangri hreyfingarinnar. Þá kveðst hann vera bjartsýnn á framtíð Vinstri grænna í landsmálunum, hún hefði verið til góðs fyrir samfélagið og þannig yrði það áfram.
Þar sagði hún: „Félagi minn, Steingrímur J. Sigfússon, tilkynnti í dag að hann hygðist ekki bjóða sig fram í næstu alþingiskosningum. Þetta gerði hann á fjarfundi kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis. Sjaldan hefur mér fundist jafn leiðinlegt að vera ekki á staðfundi því við þetta tækifæri langar mann svo sannarlega að standa upp og klappa fyrir merkilegum stjórnmálamanni. Ég hef setið með honum á þingi, þó ekki nema um það bil þriðjung af hans þingtíma 😊, bæði á erfiðum tímum í ríkisstjórninni 2009-2013 þar sem hann vann mikið þrekvirki sem fjármálaráðherra og einnig eftir að hann lét af formennsku en tók að sér margháttuð verkefni í þinginu enda svo reynslumikill að það gilti einu hvaða nefndum hann sat í. Það skemmtilegasta við þessa samveru hafa þó verið fundaferðir út um land, ekki síst um hans kjördæmi þar sem hann þekkir hverja þúfu og hverja kind. Meira ætla ég ekki að segja að sinni, ég fæ betra tækifæri til að reifa feril Steingríms síðar, og við eigum heilan þingvetur eftir saman. Og vonandi fæ ég tækifæri til að ganga með honum um Langanes næsta sumar, ég veit að drengirnir mínir vonast til þess!”
Steingrímur er fæddur á Gunnarsstöðum í Þistilfirði 4. ágúst 1955, hefur setið á Alþingi fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og síðan Norðausturkjördæmi frá því 1983 og er með lengsta þingreynslu allra núverandi þingmanna.
Hann hefur leitt framboðslista í síðustu 11 alþingiskosningum og verið í framboði í öllum kosningum síðan 1978. Hann sat fyrst á þingi fyrir Alþýðubandalagið, var formaður þingflokks Alþýðubandalagsins um tíma.
Steingrímur stofnaði Vinstri Græn ásamt fleiri félögum árið 1999. Steingrímur hefur á sínum þingferli verið landbúnaðar- og samgönguráðherra, fjármála, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, efnahags og viðskiptaráðherra og atvinnuvega og nýsköpunarráðherra. Þá hefur Steingrímur verið leiðandi í norrænu samstarfi bæði í Norðurlandaráði og Vestnorræna ráðinu. Hann hefur verið forseti Alþingis, fyrst í stuttan tíma 2016 og fram í janúar 2017 og síðan aftur frá því eftir kosningar 2017 og er enn.