Ákveðið hefur verið að skipta Mjólkursamsölunni, einnig þekkt sem MS, upp í þrjú félög. Innlend starfsemi verður áfram í Mjólkursamsölunni en Ísey útflutningur og eignarhlutur í móðurfélagi Ísey Skyr Bars færast í félagið MS erlend starfsemi ehf. og eignarhlutur í bandaríska skyrfyrirtækinu Icelandic Provisions í félagið MS eignarhald ehf.
Ari Edwald, sem verið hefur forstjóri Mjólkursamsölunnar frá árinu 2015, hefur undanfarið verið framkvæmdastjóri Ísey útflutnings samhliða því starfi Hann færir sig nú alfarið yfir í erlendu starfsemina og mun stýra MS erlendri starfsemi og MS eignarhaldi.
Pálmi Vilhjálmsson, núverandi aðstoðarforstjóri, verður forstjóri Mjólkursamsölunnar.
Eigendur Mjólkursamsölunnar eru Auðhumla, samvinnufélag kúabænda, sem á 80 prósent hlut og Kaupfélag Skagfirðinga sem á 20 prósent hlut.
Gert að greiða háa sekt
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu í marsmánuði að Mjólkursamsalan ætti að greiða alls 480 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brota á samkeppnislögum, fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína og mismunað viðskiptaaðilum sínum þegar kom að því að selja hrámjólk til framleiðslu á mjólkurvörum.
Þannig seldi Mjólkursamsalan keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum, það er að segja hrámjólk, á hærra verði en Mjólkursamsalan sjálft og tengdir aðilar, sem eru Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélag þess, þurftu að greiða.
Stofnendur og fyrrum eigendur Mjólku stefndu í sumar Mjólkursamsölunni vegna þess sem þeir segja að séu langvarandi, ítrekaðra og alvarleg brota á samkeppnislögum af hálfu fyrirtækisins. Með stefnunni fóru fyrrverandi eigendur Mjólku fram á Mjólkursamsalan viðurkenni skaðabótaskyldu sína gagnvart þeim.