Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun hvort það væri hlutverk heilbrigðiskerfisins á Íslandi að bregðast við pólitísku heilbrigðisvandamáli tugmilljóna þjóða þegar Íslendingar glímdu við biðlista í heilbrigðiskerfinu „sem okkur dreymir öll um að eyða“.
Málið sem þingmaðurinn vísaði í er ný þingsályktunartillaga um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi sem 19 þingmenn úr Samfylkingunni, Viðreisn, Pírötum,Vinstri grænum og þingmenn utan flokka á Alþingi hafa lagt fram. Ásmundur spurði hvort svona tillaga væri „ekki atlaga að íslensku heilbrigðiskerfi“.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar – en hún sagði þingmanninn fara með rangfærslur í ræðu sinni og gagnrýni hann harðlega fyrir að halda hana undir þessum lið þar sem hún og aðrir flutningsmenn gætu ekki svarað orðum hans.
Réttur þeirra verndaður sem ekki geta notið sjálfsforræðis yfir eigin líkama
Í tillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra tryggi að einstaklingar sem ferðast hingað til lands í því skyni að gangast undir þungunarrof fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Þetta verði bundið því skilyrði að viðkomandi megi ekki gangast undir þungunarrof vegna lögbundinna hindrana í heimalandinu og uppfylli skilyrði í lögum um þungunarrof. Þá þurfi viðkomandi að geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu.
Í greinargerð með tillögunni er bent á að heildarendurskoðun á lögum um þungunarrof sé nýlokið en yfirlýst markmið þeirra er „að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu“.
Ísland sé þar að auki aðili að fjölmörgum alþjóðasamningum, meðal annars samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningnum), og kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem meðal annars er kveðið á um rétt kvenna til heilbrigðisþjónustu.
Með hliðsjón af því sé markmið þessarar þingsályktunartillögu að tryggja að einstaklingum, sem hafa erlent ríkisfang og hafa ekki dvalið hér á landi til lengri tíma en geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu, séu veitt þau réttindi sem lög tryggja hér á landi og gera þannig handhöfum evrópska sjúkratryggingakortsins kleift að undirgangast þungunarrof sem annars væri þeim ekki aðgengilegt. Með því væri verndaður réttur þeirra sem ekki geta notið sjálfsforræðis yfir eigin líkama, í ljósi laga eða niðurstöðu dóma í heimalandi þeirra.
Afgerandi staða tekin með kvenréttindum í Evrópu
„Nauðsynlegt er að heilbrigðisráðherra tryggi aðgengi handhafa evrópska sjúkratryggingakortsins að þungunarrofi hérlendis, að fyrrgreindum skilyrðum uppfylltum, og að þannig sé tekin afgerandi staða með kvenréttindum í Evrópu. Aðgengi að þungunarrofi er ekki jafnt innan Evrópska efnahagssvæðisins, til að mynda má ekki framkvæma þungunarrof á Möltu nema líf konunnar sé í hættu. Hinn 22. október 2020 ákvarðaði stjórnlagadómstóll Póllands að herða enn frekar lög um þungunarrof og taka fyrir að þungunarrof væri framkvæmt væri fóstrið ekki lífvænlegt, en það hefur hingað til hefur verið ástæða um 98% löglegra þungunarrofa í Póllandi.
Þar sem einungis tvö lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins, Malta og Pólland, uppfylla skilyrðið sem lagt er til í þingsályktunartillögu þessari, er ekki talið að þetta hafi íþyngjandi afleiðingar fyrir ríkissjóð. Þó að það væri óskandi að geta tekið á móti fleiri konum eða einstaklingum sem ekki hafa þessi réttindi í heimalandi sínu eru flutningsmenn frumvarpsins meðvitaðir um það bakslag sem er í sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir líkama sínum í Evrópu en í krafti evrópskrar samvinnu á vettvangi heilbrigðisþjónustu á Íslandi er hægara um vik að tryggja konum og einstaklingum með evrópska sjúkratryggingakortið þá sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu sem felst í þungunarrofi,“ segir í greinargerðinni.
Fram kemur í tillögunni að aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðgöngu séu grundvallarmannréttindi. Með því að tryggja aðgengi erlendra borgara, sem annars hafa ekki löglegan rétt til þessarar þjónustu, tæki Ísland afgerandi stöðu með réttindum þeirra, ekki bara hérlendis heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi.
Velti fyrir sér stöðu spítalans til að taka á móti þessum konum
Ásmundur gerði málið, eins og áður segir, að umræðuefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun. „Starfsumhverfi heilbrigðisþjónustunnar er reglulega til umræðu í þinginu. Minni hlutinn í þinginu þreytist ekki á að benda á það sem betur má fara. Vissulega er margt sem betur má fara í heilbrigðiskerfinu sem nú upplifir sína erfiðustu tíma. En það eru samt 18 þingmenn sem telja að ekki sé nóg að gert í heilbrigðiskerfinu, þingmenn sem margoft hafa rætt um vandamál og mönnun í heilbrigðiskerfinu, lélega aðstöðu, of mikið álag, of lítið fjármagn, of lág laun og að þar sé allt í volli. Samt erum við að tala um eitt af bestu heilbrigðiskerfum í heimi,“ sagði Ásmundur.
Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar munu flytja hana í dag en málið er 17. mál á dagskrá þingsins. Ásmundur telur að tillagan muni fela í sér aukið álag á heilbrigðiskerfið og þó fyrst og fremst á Landspítalanum.
„Það er sem sagt verið að flytja þingsályktunartillögu um aðgengi fyrir konur til að ferðast til Íslands í fóstureyðingu. Þingsályktunartillagan á fyrst og fremst við íbúa í Póllandi og Möltu, en þeir eru samtals 38,2 milljónir. Fram kom fram í þættinum Heimsbyggð í Ríkisútvarpinu, þar sem þessi þingsályktunartillaga var til umfjöllunar, að á bilinu 100.000 til 200.000 ólöglegar fóstureyðingar ættu sér stað á hverju ári í Póllandi,“ sagði hann.
„Ég velti fyrir mér, þótt ekki væri nema brot af þessum fóstureyðingum ætti að flytjast á Landspítalann, hvernig staðan verði á þungsettum spítalanum og kvennadeildinni. Ég velti líka fyrir mér kostnaðinum, virðulegur forseti: Hver á að greiða fyrir flug og gistingu? Hver greiðir fyrir viðtal, þjónustu og aðgerðirnar sem á eftir fylgir? Hver greiðir fyrir eftirfylgnina, sálfræðiaðstoðina og annað sem hér er í boði?“ spurði Ásmundur.
Telur Ásmund þurfa leiðsögn
Rósa Björk tók til máls undir liðnum fundarstjórn forseta og ræddi ræðu Ásmundar. „Ég vil ræða hér fundarstjórn forseta vegna ræðu háttvirts þingmanns Ásmundar Friðrikssonar hér áðan sem snerist um þingmál mitt, þingsályktunartillögu mína um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.“
Hún gerði athugasemd við að Ásmundi hefði ekki verið leiðbeint um það að í þingsköpum væri liður sem heitir að eiga orðastað við þingmann. „Ef hann vill ræða við mig um mitt þingmál og gera athugasemdir við mitt þingmál sem átján þingmenn hér í þessum stað styðja þetta heilshugar. Að þessi þingmaður háttvirtur skuli nota liðinn störf þingsins til þess að bæði að fara með rangfærslur í þessu máli í stað þess að nota liðinn að eiga orðastað við þingmann. Ég tel þetta vera ámælisvert, herra forseti, og ég tel að það þurfi að leiðbeina háttvirtum þingmanni með þingsköpin sem að greinilegt er að þingmaður þekkir ekki nægilega til þess að geta fært rök fyrir máli sínu sem er afvegaleitt og snýst um að afbaka hér staðreyndir.“
Forseti Alþingis tók undir með Rósu Björk
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, svaraði Rósu Björk og sagði að hann yrði að taka undir það að við þessar aðstæður hefði verið tilhlýðilegt að Ásmundur hefði haft samband við þann þingmann sem hann hygðist eiga orðastað við, ef um slíkt væri að ræða.
„Á þetta hefur áður reynt og forseti hefur áður bent þingmönnum á að það er við hæfi, ef þeir ætla að víkja sérstaklega og beint að málefnum annars þingmanns, að hann sé þá varaður við og geti verið á mælendaskrá á eftir. Þessar leikreglur eiga allir háttvirtir þingmenn að þekkja og það er erfitt um vik fyrir forseta að leiðbeina mönnum eftir á. Það er nú bara vandinn,“ sagði Steingrímur.
Fleiri þingmenn tóku undir orð Rósu Bjarkar undir liðnum fundarstjórn forseta og gagnrýndu Ásmund fyrir orð hans og ásetning í fyrri ræðu.
„Ráðum við við slíka þjónustu?“
Ásmundur spurði jafnframt út í málið á fundi velferðarnefndar Alþingis í gær þar sem rætt var um neyðarstig Landspítalans, að því er fram kemur í frétt mbl.is. Benti hann á frétt á RÚV um 150 þúsund þungunarrof í Póllandi á ári. „Ráðum við við slíka þjónustu?“ spurði hann.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, var til svara á fundinum og sagði Landspítalann ekki geta tekið við 150 þúsund konum sem þyrftu að fara á kvennadeildina. „Við erum ekki með þannig bolmagn en ég vil nú kannski ekki tjá mig meira um þetta mál umfram það. Ég hef ekki heyrt nein áform um að taka við slíkum hópi,“ sagði hann.