Stuðnings-Kría, sem er lán á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til sprotafyrirtækja, hefur mætt gagnrýni úr nýsköpunarumhverfinu vegna breytiréttar sem gæti gert ríkið að hluthöfum í slíkum fyrirtækjum. Eignarhlutur hins opinbera í sprotafyrirtækjum er ekki í samræmi við Nýsköpunarstefnu ríkisins, en ráðuneytið telur úrræðið þó vera réttlætanlegt þar sem það var viðbragðs- og björgunaraðgerð vegna uppnáms á markaði í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar.
Tímabundin aðgerð vegna COVID-19
Nýsköpunarráðuneytið kynnti Stuðnings-Kríu í byrjun júlímánaðar, en úrræðið felur í sér að hið opinbera mun tímabundið veita lán til sprotafyrirtækja sem mótframlag við aðra fjárfestingu í þeim. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA), sem er í eigu ríkisins, hefur umsjón með lánunum og getur úthlutað allt að 755 milljónum króna í þessi lán.
Í auglýsingu ráðuneytisins á láninu segir að það sé veitt til að bregðast við vanda lífvænlegra sprotafyrirtækja sem lentu í rekstrarvanda vegna COVID-19 heimsfaraldursins.
Býður upp á „misnotkun“
Samkvæmt skilmálum lánsins eru þau til þriggja ára og bera tíu prósenta vexti, auk þess sem kröfuhafar hafa 20 prósenta afslátt á hlutum í fyrirtækinu. Lánið inniheldur einnig svokallaðan breytirétt, sem gerir kröfuhöfum kleift að kaupa hlut í fyrirtækið á einni krónu á hlut ef lánið greiðist ekki að fullu innan þriggja ára.
Samtök sprotafyrirtækja gerðu athugasemdir við breytiréttinn í minnisblaði sem sent var á Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, nýsköpunarráðherra, í síðasta mánuði. Samkvæmt samtökunum er ákvæðið til þess fallið að skapa verulegt valdaójafnvægi á milli skuldara og kröfuhafa, auk þess sem hún skapar óeðlilega hvata fyrir kröfuhafa sem gæti hagnast mikið á því að lánið yrði ekki greitt upp.
„SSP telur ákvæðið fara langt út fyrir að gera úrræðið „óþægilegt“ fyrir sprotafyrirtæki, heldur sé beinlínis verið að bjóða þeim fyrirtækjum, sem þurfa hvað mest á aðstoð að halda, kjör sem bjóða upp á misnotkun,“ segir einnig í minnisblaðinu.
Aðrar heimildir Kjarnans taka í sama streng og segja breytirétt á kaupgenginu 1 geta auðveldlega leitt til þess að kröfuhafar eignist allt félagið í sumum tilvikum.
Helga Valfells, stofnandi fjárfestingarsjóðsins Crowberry Capital, segir að sér hafi fundist þessir skilmálar frekar harðir og óvenjulegir og að þeir geti jafnvel haft neikvæð áhrif á framhaldsfjárfestingu í félaginu. Því hafi sjóðurinn ekki hvatt fyrirtæki í þeirra eignasafni til að nýta sér þetta úrræði, heldur hafi hann frekar lagt áherslu á beina fjárfestingu hluthafa.
Segir ákvæðið eðlilegt
Að mati nýsköpunarráðuneytisins eru skuldabréf með breytirétti hins vegar mjög algeng fjármögnunarleið fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. „Þau eru notuð vegna þess að verðmat sprotafyrirtækja á fyrstu stigum er erfitt og í besta falli ágiskun þar sem mikil óvissa er um þróun slíkra fyrirtækja á fyrstu stigum,“ kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Enn fremur bætir ráðuneytið við að ákveðið hafi verið eftir ráðgjöf frá lögfræðingum að fastsetja skiptigengið hjá kröfuhöfunum á 1 krónu á hlut til að „minnka líkur á misnotkun.“ „Von ráðuneytisins er að sjálfsögðu sú að rekstur sprotafyrirtækja gangi það vel að þeim takist að greiða lánin upp eða sækja sér nýja fjármögnun á næstu þremur árum.“
„Vel réttlætanlegt“ ósamræmi við opinbera stefnu
Með ákvæðinu um breytirétt gæti farið svo að ríkið eignist beinan hlut í fleiri sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. greiði þau ekki upp lánin sín að fullu. Þetta er ekki í samræmi við Nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar, þar sem kemur fram að ríkið eigi ekki að jafnaði að fjárfesta beint í slíkum fyrirtækjum.
Nýsköpunarráðuneytið telur þó úrræðið sitt vera „vel réttlætanlegt“ í ljósi þess að um tímabundna björgunaraðgerð var að ræða:
„Stuðnings – Kría er aðgerð sem til varð vegna þess ástands sem skapaðist á fjármálamörkuðum í vor vegna áhrifa Covid-19 en fjármögnun margra sprota- og nýsköpunarfyrirtækja komst á þeim tíma í mikið uppnám með litlum fyrirvara,“ sagði ráðuneytið. „Í þessu tilfelli þóttir það vel réttlætanlegt þó það falli ekki að öllu leyti að stefnu og framtíðarsýn ráðuneytisins enda um einskiptis neyðaraðgerð að ræða.“