Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, hefur gert herferð sex íslenskra framleiðslufyrirtækja „Íslenskt skiptir máli“ að umtalsefni á Facebook en hann segist vera „aðeins ruglaður með hvaða tilfinningum sé verið að reyna að ná fram með þessum erlendu áletrunum á umbúðum íslenskra vara í herferðinni“.
Pawe spyr hvort boðskapurinn sá sá að vörurnar séu það góðar að þær gætu auðveldlega orðið útflutningsvörur. „Eða að ef við kaupum þær ekki þá muni erlendar vörur ryðja þeim út, og við munum þurfa að t.d að læra rússnesku til að skilja hvað standi á umbúðum neysluvara? Í þessu tilfelli stendur til dæmis „mjúkur klaki“,“ skrifar hann og vísar í auglýsingu Kjöríss þar sem búið er að setja rússneska áletrun á Kjörís-umbúðir í staðinn fyrir íslenska.
Hvetja íslenska neytendur til að velja íslenskar vörur
Mjólkursamsalan, Ölgerðin, Nói Síríus, Kjörís, Sælgætisgerðin Freyja og Gæðabakstur sendu frá sér fréttatilkynningu þann 3. nóvember síðastliðinn þar sem fram kom að þau hefðu tekið höndum saman um að hvetja íslenska neytendur til að velja íslenskar vörur, ekki síst ef hún stæði jafnfætis eða væri betri en sú erlenda. Í tilkynningunni sagði að vörur frá þessum aðilum væru og hefðu verið til á íslenskum heimilum um áratugaskeið.
„Þessi sex fyrirtæki vilja með átakinu „Íslenskt skiptir máli“ vekja neytendur til vitundar um að íslensk framleiðsla er allt annað en sjálfsögð, enda markaðssvæðið lítið, en það að velja íslenskt tryggir ekki aðeins þúsundir starfa, heldur hefur bein áhrif á meirihluta íslenskra heimila. Íslenskar vörur þurfa háa hlutdeild á markaði til að standa undir sér og því skiptir máli að neytendur séu meðvitaðir um að íslensk vara, sem þeim finnst sjálfsagt að fáist í verslunum, gæti horfið af markaði ef erlendur valkostur er valinn,“ sagði í tilkynningunni.
Þá kom fram að íslenskar vörur sköpuðu fjölmörg störf og í núverandi ástandi þar sem innviðir eru brothættir vegna COVID-19, skipti máli að vernda störf. „Samtök iðnaðarins hafa t.a.m. bent á að iðnaðurinn muni draga vagninn þegar COVID slotar og þá sé nauðsynlegt að Íslendingar standi saman og kaupi íslenskt. Í núverandi landslagi, þar sem horft er fram á mesta samdrátt í langan tíma, er mikilvægara en nokkru sinni að hugsa um íslenska framleiðslu.
Íslensk framleiðsla skapaði ríflega 7 prósent af landsframleiðslu á síðasta ári, jafnvirði 219 milljarða króna. Sé fiskvinnsla tekin út, stendur eftir að 17.500 manns störfuðu í framleiðsluiðnaði á síðasta ári, sem nemur um 8 prósent starfa.“ sagði í tilkynningu fyrirtækjanna.
Fyrirtækin sex halda enn fremur úti vefsíðu þar sem sjá má vörur frá þeim þar sem búið er að breyta áletrun á umbúðum varanna. Á vefsíðunni segir að málið snúist um meira en samstöðuna. Einnig þurfi að mæta síauknum kröfum neytenda um gæði, umhverfisvitund, rekjanleika og gott eftirlit. „Við erum í góðum málum hvað þetta varðar og íslenskar vörur standa þeim innfluttu fyllilega samanburð,“ segir á vefsíðunni.