Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25 prósent fylgi í nýrri skoðanakönnun MMR og mælist fylgi flokksins rúmum þremur prósentustigum hærra en í síðustu könnun MMR, sem framkvæmd var fyrir um mánuði síðan. Samfylking og Píratar bæta einnig við sig, um það bil prósentustigi hvor flokkur, og mælast nú með 16,7 og 14,3 prósent fylgi.
Aðrir flokkar mælast með minna en 10 prósenta fylgi. Framsóknarflokkurinn mælist með 9,9 prósent fylgi, Miðflokkurinn með 9,1 prósent, Viðreisn 8,4 prósent og Vinstri græn 7,5 prósent.
Fylgi allra þeirra flokka sem mælast undir með undir 10 prósent fylgi í þessari nýju könnun MMR dalar á milli kannana og fylgi Miðflokksins mest, eða um tvö og hálft prósentustig.
Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins mælast svo með 4 og 3,9 prósent fylgi. Það er ekki útilokað að slíkt fylgi gæti skilað þeim kjördæmakjörnum þingmönnum, en það myndi ekki duga til að fá uppbótarþingmenn, enda þurfa flokkar að fá yfir fimm prósent fylgi til þess.
Benda á að svo virðist sem Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur séu að berjast um sömu kjósendurna
MMR vekur athygli á því í tilkynningu um niðurstöðurnar að stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn sveiflast í gagnstæða átt við fylgi Miðflokksins og að umtalsverð fylgni hafi verið þarna á milli allt frá því að Miðflokkurinn var stofnaður og fyrirtækið hóf að mæla stuðning við hann.
Könnunarfyrirtækið segir þetta benda til þess að nokkur barátta standi milli flokkanna um hylli sömu kjósendanna.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 51,7 prósent og jókst um rúmt prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 50,3 prósent.
Litlu munar á þriggja flokka blokkum stjórnar og stjórnarandstöðu
Stuðningur við ríkisstjórnina er sem fyrr umfram samanlagðan stuðning við stjórnarflokkana þrjá sem hana mynda, Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og VG. Samanlagður stuðningur þessara þriggja flokka mælist nú 42,4 prósent og eru þeir allir undir kjörfylgi sínu frá Alþingiskosningunum 2017, þó að Sjálfstæðisflokkurinn slagi nú upp í það. Vinstri græn hafa tapað yfir 9 prósent fylgi á kjörtímabilinu, samkvæmt þessari nýju könnun MMR.
Eins og Kjarninn fjallaði um í morgun segist Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata sjá fyrir sér möguleika á stjórnarsamstarfi flokksins við Samfylkingu og Viðreisn, ásamt væntanlega einhverjum fjórða flokki Hún talaði þar með á svipaðan hátt og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar hefur gert.
Samanlagt fylgi flokkanna þriggja er í dag 39,4 prósent, samkvæmt þessari nýju könnun MMR, þegar tæpt er ár til næstu kosninga til Alþingis.