Halldóra sér fyrir sér stjórnarsamstarf Pírata við Samfylkingu og Viðreisn

Þingflokksformaður Pírata segir að enginn flötur sé á ríkistjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk eða Miðflokk. Augljósustu kostirnir fyrir slíkt samstarf séu Samfylkingin og Viðreisn. Kosningabandalag sé þó ekki í pípunum.

Halldóra Mogensen er þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen er þingmaður Pírata.
Auglýsing

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir að Samfylkingin og Viðreisn væru augljósu kostirnir fyrir Pírata í ríkisstjórnarsamstarfi eftir næstu kosningar, sem fram fara í september á næsta ári. „Það þyrfti væntanlega að verða fjórði aðili. Ég veit ekki hver það yrði, bara hver það yrði ekki. Það yrði klárlega ekki Sjálfstæðisflokkurinn og ég sé engar forsendur til að vinna með Miðflokknum.“

Þetta kemur fram í viðtali við Halldóru í hlaðvarpsþættinum Arnarhóli sem fór í loftið í morgun. 

Þar segir Halldóra að hún upplifi Pírata sem frjálslyndan félagshyggjuflokk á miðjunni. Hún sjái Samfylkinguna líka sem frjálslyndan flokk sem halli sér til vinstri og Viðreisn sem slíkan sem halli sér til hægri. Hún segir að hún þoli ekki þá forræðishyggju sem henni finnst birtast víða í stjórnmálum. „Það er ástæðan fyrir því að ég á mjög erfitt með suma flokka. Þessi íhaldssemi felur í sér ofboðslega mikið stjórnlyndi og forræðishyggju.“

Embættið getur breytt fólki í róbóta

Halldóra segir að það standi ekki til að mynda sérstakt kosningabandalag flokka líkt og gert var skömmu fyrir kosningar 2016. Það hafi einfaldlega verið mistök og þau verði ekki endurtekin.

Auglýsing
Hún segist hins vegar vera tilbúin í að ræða við Samfylkingu og Viðreisn, sem Píratar eigi mest sameiginlegt með, um að fara með sameiginlega sýn á ákveðna málaflokka inn í kosningar. Þannig yrði flokkarnir ekki bundnir saman í blokk heldur gætu þeir ákveðið fyrirfram einhver mál sem þeir myndu lofa að koma í gegn ef þessir flokkar myndu fá meirihluta atkvæða og gætu myndað ríkisstjórn. Dæmi um slík mál væru breytingar á sjávarútvegskerfinu, ný stjórnarskrá og umhverfismál. „Þarna gætum við þrír flokkar verið mjög skýr og heiðarleg um að ef við náum meirihluta og ef við náum að mynda ríkisstjórn þá myndum við strax koma með þessar X breytingar inn í þessa þrjá málaflokka. En við myndum aldrei gera það nema að hafa hina flokkanna með okkur í liði og að það væru allir sammála um að þetta væri góð hugmynd.“

Halldóra tjáir sig líka um Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna, í hlaðvarpinu. Hún segist ekki þekkja forsætisráðherra persónulega heldur einungis í gegnum vinnuna og mögulega sé það embættið sjálft sem breyti fólki í hálfgerða róbóta. „Þegar fólk fer inn í þessi valdaembætti þá er það alltaf í vörn. Það fer að tala eitthvað allt annað tungumál og nota einhvern tón sem mér finnst varla vera mennskur lengur. ég væri til í að sjá manneskju taka þetta embætti sem gæti tæklað þetta á þann átt að manneskjan gæti breytt embættinu frekar en að láta embættið breyta sér.“

Samfylkingin vill sama samstarf

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur ítrekað talað fyrir ríkisstjórnarsamstarfi þar sem Samfylkingin, Píratar og Viðreisn séu uppistaðan og að einn annar flokkur, annað hvort Vinstri græn eða Framsóknarflokkur, bætist við til að mynda meirihluta. Hann hefur sömuleiðis ítrekað sagt að ekki sé málefnalegur grundvöllur fyrir samstarfi við Sjálfstæðisflokk eða Miðflokk. Þá hefur Logi nefnt sömu málaflokka og Halldóra sem mögulegan grundvöll fyrir samstarfi frjálslyndu flokkanna þriggja. 

Síðast gerði Logi þetta á landsfundi Samfylkingarinnar um liðna helgi þar sem hann sagði einu leiðina að ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki með „fingurna í fjármálum ríkisins“ væri stuðningur við Samfylkinguna. „Sjálf­stæðis­flokkurinn er sundraður og klofinn, sem er reyndar hætt að sæta tíðindum. Þau í­halds­sömustu ganga nú í Mið­flokkinn, eitt af öðru og hörðustu markaðs­sinnarnir eru farnir í Við­reisn. Það eru engin prinsipp eftir, bara varð­staða um þrönga sér­hags­muni. Milli­tekju­fólk og smærri at­vinnu­rek­endur eiga enga máls­vara þarna lengur – hvað þá tekju­lægstu hóparnir.“

Viðreisn varkár í yfirlýsingum

Forystufólk Viðreisnar hefur lítið gefið upp opinberlega um hvaða ríkisstjórnarsamstarf það sér sem eftirsóknarverðast eftir næstu kosningar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, gaf þó skýrt til kynna í viðtali við Kjarnann hvert hugur hennar stefnir eftir næstu kosningar, án þess að nefna sérstaklega flokka. „„Við þurfum fólk sem raunverulega meinar það þegar það talar um gagnsæi og um að miðla upplýsingum og situr ekki á skýrslum rétt fyrir kosningar. Þess vegna þarf að vera þungi og alvara af okkar hálfu sem erum í stjórnmálum því við getum breytt hlutunum. Það þýðir ekki að tipla á tánum í kringum þetta gamla. Það gamla varð til út af ákveðinni ástæðu og allt í góðu með það en í dag er annar tími sem gerir kröfur og setur ábyrgð á herðar okkar sem eru í stjórnmálum að breyta – og uppfæra.“

Þar vísaði Þorgerður í að fyrir kosningarnar 2016 hafi tvær skýrslur sem fjölluðu um mál sem voru á meðal stærstu álitaefna síðustu ára, aflandeignir Íslendinga og skiptingu Leiðréttingarinnar milli landsmanna, verið tilbúnar. Þær voru hins vegar ekki birtar fyrr en eftir kosningarnar 2016. Báðar skýrslurnar voru unnar fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið sem var, og er, stýrt af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. 

Þessir þrír flokkar: Samfylkingin, Píratar og Viðreisn fengu samanlagt 28 prósent atkvæða í þingkosningunum 2017. Í síðustu könnun Gallup mældist sameiginlegt fylgi þeirra 39,6 prósent og í síðustu könnun MMR mældist það 38,4 prósent. Það fylgi ætti að duga til að geta myndað ríkisstjórn að óbreyttu með annað hvort Vinstri grænum eða Framsókn. 

Flokkarnir þrír eru þegar í samstarfi í næst stærsta stjórnvaldi landsins, Reykjavíkurborg. Þar sitja Vinstri græn með þeim líka. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Einkabílaeign á Ísland er hlutfallslega sú hæsta í Evrópu.
Getur Ísland keyrt sig út úr loftslagsvandanum?
Orkuskipti í samgöngum er eitt helsta framlag íslenskra stjórnvalda í baráttunni við loftslagshamfarir. Rafbílar eru hins vegar ekki sú töfralausn sem oft er haldið fram. Vandamálið er ekki bensíndrifnir bílar heldur bíladrifin menning.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent