Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) munu áhrif aukins fjölda Íslendinga á þrítugsaldri koma fram á húsnæðismarkaðinn „fyrr eða seinna.“ Stofnunin telur einnig líklegt að framboð nýrra íbúða gæti dregist saman á næstu árum vegna samdráttar í byggingariðnaði. Fari svo mætti búast við aukinn þrýsting og hærra verð á húsnæðismarkaðnum á næstu árum.
Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS kemur fram að virkni á fasteignamarkaði hafi verið í hæstu hæðum síðan Seðlabankinn lækkaði meginvexti sína í vor. Júlí var metmánuður í fjölda útgefinna kaupsamninga og hafa þeir ekki verið fleiri frá árinu 2007, en skammtímavísir stofnunarinnar bendir til þess að fjöldinn hafi verið enn meiri í september.
Samhliða miklum fjölda kaupsamninga hefur fjöldi fyrstu kaupenda aukist töluvert á síðustu mánuðum. Nærri 30 prósent fasteignakaupa á landinu öllu á nýliðnum ársfjórðungi voru fyrstu kaup og hefur það hlutfall ekki verið jafnhátt í a.m.k. tólf ár. Þó segir HMS að margt bendi til þess að toppi hafi verið náð í yfirstandandi fasteignasveiflu í september.
Stórir árgangar koma inn á markaðinn
Samkvæmt skýrslu HMS eru þó vísbendingar um að aukinn þrýstingur verði á húsnæðismarkaði á næstu árum. Stórir árgangar eru að taka skrefið inn á húsnæðismarkaðinn núna, en samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu hefur fólki á aldrinum 22-29 ára fjölgað um tíu þúsund á síðustu átta árum. Meðalaldur fyrstu kaupenda hérlendis er 30 ár, svo að búast má við aukinni eftirspurn með innkomu þessara árganga.
„Þó að óljóst sé hvort verðandi fyrstu kaupendur muni haga sér líkt og þeir sem á undan komu, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að þessi hópur þarf að búa einhvers staðar svo áhrif hans á fasteignamarkaðinn munu koma fram fyrr eða seinna,“ segir í skýrslunni.
Samdráttur í byggingariðnaði
Til viðbótar við aukinn fjölda fyrstu kaupenda bendir HMS á að nokkur samdráttur hafi orðið í byggingariðnaði. Í ágúst síðastliðnum voru 9,7 prósent færri störf í greininni heldur en á sama tíma í fyrra. Stærstur hluti þessarar fækkunar var tilkominn vegna innflytjenda í geiranum, en þeim fækkaði um 23 prósent á meðan starfsmönnum í byggingariðnaði með íslenskan bakgrunn fækkaði bara um 3,7 prósent.
HMS vitnar einnig í talningar Samtaka iðnaðarins á fjölda íbúða í byggingu, en samkvæmt henni mælist um 41 prósenta samdráttur í fjölda íbúða á fyrstu byggingarstigum síðan í mars á þessu ári. Stofnunin telur að hætt sé við að samdráttur í byggingariðnaði geti haldið áfram á næstu misserum og að fjöldi nýrra íbúða gæti dregist saman á næstu árum.
Ekki 2008
Þó bætir HMS við að ólíklegt sé að samdráttur í byggingariðnaði nú verði í líkingu við það sem hann var í kjölfar efnahagskreppunnar 2008. Aukin sala á nýbyggingum gæti skilað sér í auknum áhuga hjá fjárfestum til að fjármagna ný verkefni, auk þess sem nýsamþykkt hlutdeildarlán ríkisstjórnarinnar skapað aukinn hvata til byggingar íbúðarhúsnæðis sem fellur undir skilyrði þeirra.