Alþýðusamband Íslands (ASÍ) spáir því að atvinnuleysi haldist yfir 6,9 prósentum út árið 2022. Þó bætir sambandið við að atvinnuleysið gæti verið meira verði viðsnúningi ekki náð í ferðaþjónustu.
Þetta kemur fram í nýbirtri hagspá ASÍ fyrir tímabilið 2020-2022. Í henni er gert ráð fyrir tæplega átta prósenta samdrætti í landsframleiðslu í ár og 1,8 prósenta hagvexti á næsta ári. ASÍ bætir þó við að efnahagsleg viðspyrna sé háð getu yfirvalda hérlendis og erlendis til að ná böndum á útbreiðslu heimsfaraldursins, en spá sambandsins er háð þeirri forsendu að hann verði á undanhaldi á síðari hluta næsta árs.
Sambandið spáir einnig miklum samdrætti í útflutningi vöru og þjónustu í ár, eða um 28 prósetnum. Ekki er gert ráð fyrir að útflutningurinn nái sömu hæðum og árið 2019 á næstu tveimur árum, en búist er við 9,2 prósenta aukningu á næsta ári og 11,4 prósenta aukningu árið 2022.
Á sama tíma er einnig búist við að innflutningur muni ekki ná sama striki á næstu árum, þar sem gert er ráð fyrir að hann verði 23 prósentum minni í ár, en níu prósenta aukningu er að vænta á næsta ári, auk ellefu prósenta aukningar á árinu 2022. Vöxturinn á næstu árum byggir á því að farið verði að rofa til í millilandaferðalögum á síðari hluta næsta árs.
Búist er við erfiðum árum framundan á vinnumarkaði. Í spá ASÍ kemur fram að viðkvæmar aðstæður hafi þegar verið til staðar áður en kórónuveiran fór að breiðast um heiminn, þar sem atvinnuleysi hafði byrjað að aukast í byrjun árs. Í septembermánuði síðastliðnum voru svo alls 18 þúsund manns atvinnulausir, en rúmlega þrjú þúsund þeirra höfðu verið án atvinnu í meira en eitt ár.
ASÍ gerir ráð fyrir um 7,8 prósenta atvinnuleysi á þessu ári og býst við að það nái hámarki á því næsta í 8,6 prósentum. Draga mun svo úr því á árinu 2022, að því gefnu að viðsnúningi verði náð í ferðaþjónustu, en búist er við að það verði enn mikið, eða um 6,9 prósent.