Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja til við forseta Íslands að Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen verði skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands frá 23. nóvember 2020.
Alls sóttu átta umsækjendur um embættin tvö sem auglýst voru til umsóknar 10. júlí síðastliðinn í kjölfar þess að Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir báðust lausnar frá dómstólnum. Því hafa einungis fimm dómarar setið við réttinn undanfarið, en þeir eiga að vera sjö.
Umsóknarfrestur rann út 27. júlí. Þegar kom að mati á hæfi umsækjenda voru sjö eftir í ferlinu og einn umsækjandi, Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, dró þá umsókn sína til baka.
Í upprunalegu mati hæfisnefndar vorur fjórir dómarar við Landsrétt, þau Aðalstein E. Jónasson, Davíð Þór Björgvinsson, Oddnýju Mjöll Arnardóttur og Þorgeir Inga Njálsson, metin hæfust en þær Ása og Björg, sem báðar eru prófessorar við lagadeild Háskóla Íslands, ekki. Eftir að þeim var veittur frestur til andmæla var því mati breytt og allir sex eftirstandandi umsækjendurnir metnir hæfastir.
Það kom svo í hlut dómsmálaráðherra að gera upp á milli þeirra.
Björg Thorarensen lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991 og framhaldsnámi í lögfræði frá Edinborgarháskóla árið 1993. Hún starfaði í dómsmálaráðuneytinu um árabil að námi loknu, þar af sem skrifstofustjóri um sex ára skeið. Frá árinu 2002 hefur Björg verið prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og samhliða því sinnt umfangsmiklum fræðastörfum, einkum á sviði stjórnskipunaréttar og mannréttinda, en einnig á sviði þjóðaréttar, persónuverndarréttar, stjórnsýsluréttar og sakamálaréttarfars. Björg var settur dómari við Landsrétt 1. janúar – 30. júní 2020 og að auki hefur hún sinnt fjölmörgum öðrum störfum, þ. á m. sem umboðsmaður ríkisstjórnar Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu og sem formaður stjórnar Persónuverndar um árabil.
Eiginmaður Bjargar, Markús Sigurbjörnsson, var dómari við Hæstarétt í aldarfjórðung og um tíma forseti réttarins. Hann baðst lausnar úr embættinu í fyrra.