Segir menntamálaráðherra tileinka sér „leikjafræði Vigdísar Hauks“

Þingmaður Viðreisnar gagnrýndi á þingi í dag orð mennta- og menningarmálaráðherra í viðtali um helgina þar sem hún hefði rætt málefni nafngreindra og ónafngreindra embættismanna sem ekki gætu svarað fyrir sig.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Auglýsing

„Menntamálaráðherra sat í útvarpsviðtali á sunnudag og tileinkaði sér þar leikjafræði Vigdísar Hauks, veittist að embættismönnum sem hún veit að geta ekki svarað ráðherra.“

Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Twitter-síðu sinni í dag en hún spurði Lilju Alfreðsdóttur, út í ummæli hennar á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudaginn um niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.


Formáli málsins er sá að Lilja ákvað í júní síðastliðnum að höfða mál gegn Haf­dísi Helgu Ólafs­dótt­ur, skrif­stofu­stjóra í for­sæt­is­ráðu­neyt­inu, sem kæru­nefnd jafn­rétt­is­mála úrskurð­aði nýverið að Lilja hefði brotið jafn­rétt­islög með því að snið­ganga í emb­ætti ráðu­neyt­is­stjóra í mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neyt­inu.

Auglýsing

Þorbjörg Sigríður vitnaði á Alþingi í orð ráðherra í viðtalinu á Sprengisandi en þar sagði hún:

„Ég er ráðherra, ég er líka einstaklingur og verð, alveg eins og allir aðrir í íslensku samfélagi, að geta sótt minn rétt, telji ég brotið á mér.“

Þingmaðurinn sagði þessi ummæli ráðherra vera merkileg fyrir margra hluta sakir. „Réttinn til að fara í mál hefur hún vitaskuld, það er óumdeilt, en ráðherra þarf að vera meðvitaður um að það er ráðherra sem stefnir þarna konu fyrir dóm. Þetta er dómsmál ráðherrans og þetta er dómsmál ráðherrans í nafni ríkisstjórnarinnar. Í þessu felst ekki einhver afstaða einstaklings úti í bæ og þetta er algjört grundvallaratriði í umræðunni því að þetta snýst um það hvernig þessi hæstvirtur ráðherra starfar og hvernig hún beitir valdi sínu.“

Þorbjörg Sigríður sagði að það hefði verið menntamálaráðherra sem setið hefði í útvarpsviðtali og rætt þar um nafngreinda og ónafngreinda embættismenn, starfsmenn innan stjórnsýslunnar sem ættu enga aðild að þessu dómsmáli og hefðu ekki komið þar nærri, um embættismenn sem ráðherrann vissi ósköp vel að gætu ekki tekið þátt í opinberu samtali við ráðherra og gætu ekki gert neitt annað en „að sitja undir þessum sendingum ráðherra, eins óverðskuldaðar og þær eru. Þannig fór ráðherra með vald sitt þennan dag. Ég velti fyrir mér aðstöðumuninum í þessu sambandi, aðstöðumun sem hæstvirtur ráðherra virðist ekki skynja.“

Þá fannst henni hún skynja einhverja sögu um meðferð valds sem væri óþægileg. Hún spyrði: „Er það raunverulega skoðun ráðherra að þetta dómsmál snúist um persónu Lilju Alfreðsdóttur? Og er það raunverulega skoðun hennar að hún geti setið í útvarpsviðtali og talað um embættismenn með þeim hætti sem hún gerði þennan sunnudag?“

Eina leiðin sem ráðherra hefur

Lilja svaraði og sagðist vilja benda þingmanni á að þetta væri eina leiðin til að fara í ógildingu á þessu máli. „Það er eina leiðin sem ráðherrann hefur ef ráðherrann er ekki sammála þessu. Ég breytti rétt sem ráðherra og stend við það. Ég hlakka til að fara yfir þetta mál með ykkur öllum þegar því er lokið.“ sagði Lilja.

Hún sagði málið enn fremur snúast um jafnrétti. „Þetta snýst um að það var hæfnisnefnd sem var skipuð þremur einstaklingum, tveimur konum og einum karli. Í öllum málflutningi hér er alltaf talað um karlmanninn og aldrei að það hafi líka verið tvær konur í hæfnisnefndinni, fyrrverandi rektor, fyrsta konan sem gegndi því hlutverki að vera rektor í sögu Háskóla Íslands. Í öllum málflutningi er alltaf talað um að það hafi verið karlmaðurinn sem hafi stýrt öllu. Það er rosalega brýnt þegar við erum að tala um mikilvæg málefni samfélagsins að við séum hreinskilinn og gefum upp allt sem við gerum í þeim efnum.“

„Einhvern veginn öllu snúið á hvolf“

Þorbjörg Sigríður kom aftur í pontu og þakkaði ráðherra innleggið en hún taldi Lilju ekki svara spurningunni. Hún hefði verið skýr; hvort ráðherra teldi að þetta dómsmál snerist um hana sjálfa sem persónu og hvort rétt væri að ráðherra sæti í viðtali og talaði um nafngreinda og ónafngreinda embættismenn sem ekki gætu varið sig með þeim hætti sem hún varði sig.

„Ég nefndi ekki að þetta mál snerist um karlmann eða konu, ég nefndi einfaldlega þá staðreynd, og það hlýt ég að mega, að kærunefnd komst að ákveðinni niðurstöðu í þessu máli. Vel má vera að það breytist í meðförum dómstóla. Staða málsins er sem stendur þessi: Brot gegn jafnréttislögum. En hér er einhvern veginn öllu snúið á hvolf. Það er þannig að viðkomandi konu var stefnt, og ráðherra hefur sjálfur talað um kynferði sitt í þessum efnum. Getur verið að viðbrögðin hafi eitthvað með það að gera hvaða hörku ráðherrann sýnir sjálfur í þessu máli? Alla jafna una menn svona úrskurði,“ sagði Þorbjörg Sigríður.

Viljum við hafa stjórnmálamenn sem hafa ekki kjark til að standa með því sem þeir gera?

Lilja sagðist hafa svarað þessu og telur hún að allt sem hafi verið gert í þessu máli standist skoðun. „Þess vegna, sem ráðherra, fer ég fram á ógildingu. Ég er ekki sammála þessum úrskurði. Ef það er orðið svo að stjórnmálamenn séu orðnir hræddir við það að standa með sannfæringu sinni, af hverju eru þeir þá í stjórnmálum? Er það að beita hörku að fara fram á ógildingu í máli sem maður er ekki sammála? Ég spyr bara: Viljum við hafa stjórnmálamenn eða stjórnmálakonur sem hafa ekki kjark eða þor til að standa með því sem þau gera? Mitt svar er einfalt: Nei,“ sagði ráðherrann.

Lilja Alfreðsdóttir Mynd: Bára Huld Beck

Sagði ráðherra telja sig „fórnarlambið í málinu“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, fjallaði einnig um málið á þingi í dag en hún beindi spurningum sínum til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. „Málshöfðun hæstvirts mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, gegn konu sem sótti um starf ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu en laut í lægra haldi fyrir samflokksmanni ráðherra, hefur skiljanlega vakið undrun og furðu. Stjórn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins er þannig gáttuð á málarekstrinum og segir hann óskiljanlegan. Engin dæmi séu um slíka málshöfðun. Hún setji fólk í fordæmalausa stöðu gagnvart ráðherra og geti orðið til þess að umsækjendur veigri sér við að sækja um starf hjá ríkinu,“ sagði hún.

Benti hún á að menntamálaráðherra héldi hins vegar sínu striki. Vitnaði Þórhildur Sunna í sama viðtal á Sprengisandi á Bylgjunni en þar sagði ráðherra að vandað hefði verið til verka, hún stæði við ákvarðanir sínar og teldi engan veginn harkalegt að fara í mál við einstakling. Þvert á móti væri „menntamálaráðherra fórnarlambið í málinu“.

Vitnaði þingmaður Pírata enn fremur í orð forsætisráðherra þann 2. júní síðastliðinn en þá sagði hún í ræðustól á Alþingi að málið yrði tekið til umræðu á næsta ríkisstjórnarfundi sem fram fór þremur dögum síðar. „Ekki verður þó séð, af dagskrá ríkisstjórnarfunda, að þetta mál hafi nokkurn tímann verið rætt á þeim vettvangi, hvorki á næsta ríkisstjórnarfundi né nokkrum fundi síðan. Því liggur beinast við að spyrja hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur: Fékk ríkisstjórnin kynningu á úrskurði kærunefndar jafnréttismála eins og boðað var í júní? Hefur hæstv. forsætisráðherra kynnt sér forsendurnar fyrir málshöfðun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra? Ef svo er, er hæstv. forsætisráðherra sammála því að brotið hafi verið á hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra?“ spurði Þórhildur Sunna.

Lagaramminn alveg skýr

Katrín svaraði og sagðist ekki nákvæmlega muna orð sín í ræðustól en að hún tæki orð þingmanns góð og gild um það. „Ég man það hins vegar vel að hæstvirtur mennta- og menningarmálaráðherra gerði ríkisstjórn grein fyrir því munnlega að hún hygðist höfða mál til ógildingar á þessum úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Það er algerlega ákvörðun hæstvirts mennta- og menningarmálaráðherra að gera það og hún hefur til þess rétt samkvæmt gildandi lögum.“

Hún sagði jafnframt að hún hefði lagt til þá breytingu á lögum um jafna stöðu karla og kvenna að ef í slíkum málum til framtíðar væri vilji til að höfða mál til ógildingar yrði viðkomandi stjórnsýslunefnd kölluð til, eins og tíðkaðist fram til ársins 1997.

„Ég hef lagt til þessa breytingu af því að ég tel mikilvægt að kerfið sé þannig úr garði gert að það tryggi að fólk leiti réttar síns telji það á sér brotið.

Háttvirtur þingmaður spyr: Upplýsti menntamálaráðherra um ákvörðun sína? Hún gerði það. Hef ég farið nákvæmlega í málavexti þessa máls? Nei, það hef ég ekki gert enda er þetta mál alfarið á borði hæstvirtur mennta- og menningarmálaráðherra sem er hér til svara í dag og getur vafalaust farið nánar yfir það. Hvað varðar lagarammann þá er hann alveg skýr og háttvirtur þingmaður þekkir þær breytingar sem ég hef lagt til á honum,“ sagði Katrín.

Ósætti í ríkisstjórninni tæki „á sig margar myndir“

Þórhildur Sunna sagðist í framhaldinu vera fullmeðvituð um að mennta- og menningarmálaráðherra mætti sækja rétt sinn. „Ég er hins vegar að spyrja hæstvirtan forsætis- og jafnréttismálaráðherra hvort henni finnist og hvort hún sé sammála hæstvirtum menntamálaráðherra um að brotið hafi verið á henni og að einhvern rétt sé að sækja.“

Hún spurði enn fremur Katrínu um ósætti í ríkisstjórninni sem tæki „á sig margar myndir. Þegar stjórnarþingmenn eru ekki uppteknir við að gagnrýna meint alræði gegn eigin sóttvarnaaðgerðum þá eru ráðherrar að skjóta hver á annan.“

Nefndi hún fyrrnefnt viðtal máli sínu til stuðnings en þar sagði Lilja meðal annars: „Það er fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Það var flutningur sem var ekki einu sinni auglýstur.“

Þórhildur Sunna spurði Katrínu hvað henni fyndist um þessa „pillu“ mennta- og menningarmálaráðherra. Teldi hún ráðningarferli sitt við val á skrifstofustjóra jafn vandað og í tilfelli mennta- og menningarmálaráðherra eða jafnvel bera með sér svæsnari valdníðslu, eins og orð ráðherra í viðtali á sunnudag hefðu borið með sér?

Hafði heimild til að færa embættismann í starfi

Forsætisráðherra kom aftur í pontu og ítrekaði orð sín. „Ég hef ekki kafað ofan í málavexti þess máls sem háttvirtur þingmaður spyr um og tel betur fara á því að viðkomandi ráðherra fari yfir þá málavexti þegar hún situr fyrir svörum.

Mér er ljúft og skylt að fara yfir það sem háttvirtur þingmaður spyr hér um sérstaklega í sinni síðari fyrirspurn. Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins var færður til í starfi samkvæmt skýrri heimild 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem er heimild til að færa embættismenn til í starfi. Sú heimild byggist raunar á vísun í stjórnarskrá lýðveldisins þannig að sú skipun er algerlega hafin yfir vafa. Sá aðili sem var færður til í starfi gegndi áður embætti ríkissáttasemjara og var raunar skipaður í það embætti, að mig minnir, eftir auglýsingu af ráðherra Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttur, þannig að það þarf enginn að velkjast í vafa um að þessi skipun er algerlega hafin yfir vafa,“ sagði Katrín að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Frá aðdáun til andófs í álfu strangra takmarkana
Í Eyjaálfu hefur „núllstefnan“ í baráttunni við kórónuveiruna skilað eftirtektarverðum árangri og engin smit hafa greinst í nokkrum ríkjum. Eftir að smitum fjölgaði í Ástralíu og útgöngubann var sett á fannst mörgum nóg komið.
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent