Nýsköpunarráðherra hefur lagt fram frumvarp í Samráðsgátt stjórnvalda sem snýr að einföldun regluverks fyrir ýmsar atvinnugreinar. Frumvarpið inniheldur fjölda tillagna, til að mynda yrði lögverndun bókara, viðskiptafræðinga og hagfræðinga afnumin ef það yrði að lögum, auk þess sem ekki lengur þyrfti leyfi frá Neytendastofu til að setja íslenska fánann á eigin vörumerki.
Sakmvæmt ráðherra er horft til nýlegrar skýrslu efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um samkeppnismat á byggingariðnaði og ferðaþjónustu við gerð frumvarpsins. Sú skýrsla innihélt fjölda tillagna til að bæta samkeppnisumhverfið í þessum geirum, meðal annars með því að afnema lögverndun ýmissa greina. Að mati OECD gætu efnahagsleg umsvif aukist um allt að einu prósenti af landsframleiðslu ef farið yrði að tillögum þeirra.
Engin útflutningsábyrgð
Í frumvarpinu er lagt til að Tryggingadeild útflutningslána verði lögð niður, sem sér um veitingu útflutningsábyrgða. Samkvæmt frumvarpinu er slík ríkisaðstoð til útflutningsfyrirtækja óæskileg, þar sem hún felur í sér afskipti á frjálsum markaði.
Fánalögum breytt
Önnur tillaga felur í sér rýmkun á fánalögum, þar sem fyrirtæki þurfa ekki lengur leyfi til að nota íslenska fánann á eigin vörumerki. Nýsköpunarráðherra telur þessa leyfisveitingu vera þunga í vöfum, tímafreka og kostnaðarsama. Fari breytingarnar í gegn verður eftirlit með því hvort fylgt sé fánalögum í höndum Hugverkastofu.
Fasteignasalar þurfa ekki að eiga í fasteignasölu
Einnig er lagt til að skilyrði um að fólk þurfi að eiga beinan hlut í fasteignasölu til að verða fasteignasalar verði fellt brott. Þetta er einnig lagt til í skýrslu OECD, sem segir að skilyrðið sé til þess fallið að draga úr samkeppni með því að draga úr fjárfestingu í greininni. Samtökin benda einnig á að ekki sé að finna sambærileg skilyrði í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð.
Höfundarréttarlögum breytt
Til viðbótar við slakari kröfur í fánalögum og fyrir fasteignasala leggur ráðherrann til að einfalda svokallað fylgiréttargjald, sem rennur til höfunda listaverka. Í núgildandi lögum gilda aðrar reglur um málverk sem seld eru á uppboðum heldur en þeim sem seld eru beint, en með frumvarpinu verða þessar reglur samrýmdar.
Lögvernd afnumin fyrir fjölda starfa
Verði frumvarpið að lögum verður lögvernd hagfræðinga og viðskiptafræðinga einnig afnumin. Samkvæmt frumvarpinu hefur löggilding þessarra stétta enga þýðingu umfram það að geta kallað sig viðskiptafræðing eða hagfræðing og því sé hún óþörf.
Einnig bætir ráðherra við að hægt sé að bera saman menntun viðskipta- og hagfræðimenntun hérlendis og erlendis með betri hætti en áður, þar sem greinarnar eru nú kenndar í fleiri háskólum.
Ráðherrann leggur líka til að löggilding bókara verði afnumin og að nýsköpunarráðuneytið leggi niður sérstök próf til viðurkenningar á bókurum. Í frumvarpinu kemur fram að ekki sé þörf á þessum prófum lengur, þar sem nám bókara sé orðið viðurkennt í atvinnulífinu sem mikilvægur hlekkur í keðju reikningsskila.
Þar að auki yrðu ýmsar skyldur þeirra sem selja notaða bíla, t.d. í tengslum við samningsgerð og upplýsingaskyldu, numdar á brott, verði frumvarpið að lögum. Samkvæmt ráðherra eru mörg þessara ákvæða úrelt og óþörf, en önnur falla nú þegar undir eftirlit Neytendastofu.