Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði vera tiltölulega hóflegt hérlendis í samanburði við önnur lönd og að áhrifin af afnámi gjaldsins yrðu því „líkast til óveruleg“.
Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar um endurflutt frumvarp átta þingmanna Sjálfstæðisflokksins um afnám gjaldsins. Þetta er í sjötta sinn sem frumvarpið er lagt fram.
Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8 prósent stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Í stuttri greinargerð sem fylgir frumvarpi þingmannanna segir að markmið þess sé að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. „Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár.“
Til þess að ná því markmiði væri markvissara að útvíkka þann afslátt sem nú gildir um stimpilgjald vegna fyrstu kaupa, ýmist með því að auka hann enn frekar eða með því að veita vissum félagshópum, sem nú eiga sérstaklega erfitt með að komast inn á fasteignamarkað, sérstakan afslátt. Í umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ný segir að hún ítreki fyrri umsögn.
Þar segir þó einnig að einn helsti ábati afnáms stimpilgjalds sé að minnka kostnaðinn fyrir heimili við það að skipta um húsnæði og að það geti sérstaklega haft áhrif á eldri borgara sem vilja minnka við sig og yngri fjölskyldur sem vilja stækka við sig. „Því má segja að afnám gjaldsins sé líklegt til að hafa í för með sér samfélagslegan ábata. Hins vegar verður stimpilgjald einstaklinga hér á landi, í samanburði við önnur lönd, að teljast tiltölulega hóflegt og áhrifin af afnámi gjaldsins því líkast til óveruleg.“