Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að það væru hagsmunir þjóðarinnar í heild að verðmætasköpun úr sameiginlegri auðlind hennar yrði sem mest innan lands. Hann spurði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann væri reiðubúinn að beita einhvers konar hvötum til þess að auka fiskvinnslu hér á landi og draga úr útflutningi á óunnum fiski. Ráðherrann sagðist vera opinn fyrir hugmyndum.
„Í efnahagslegum niðursveiflum er mikilvægt að huga að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og sjávarútvegurinn er einn af grunnatvinnuvegunum og skiptir okkur verulegu máli. Ekki síst núna þegar stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, hrundi nánast á einni nóttu. Atvinnuleysi er í hæstu hæðum eins og við þekkjum og á enn eftir að hækka.
Í Reykjanesbæ er það komið í 22 prósent. Staðan í atvinnumálum er alvarleg. En hvað getum við gert tiltölulega hratt til að bæta ástandið? Ég tel að sjávarútvegurinn skipti þar miklu máli. Margar fiskvinnslur hafa þar ekki úr nægu hráefni að spila og á íslenskum fiskmörkuðum er ekki nægilegt framboð af hráefni og eiga fiskvinnslur sem ekki eru í útgerð í basli með að halda uppi vinnu við vinnslu,“ sagði Birgir.
Á sama tíma væri flutt úr landi umtalsvert magn af óunnum fiski sem vel væri hægt að vinna hér á landi. Aukningin frá því í fyrra hefði verið 22 prósent og stefndi í að það yrði flutt út um 60.000 tonn af óunnum fiski á þessu ári.
„Ef við myndum vinna þennan afla hér heima nema verðmætin allt að 10 milljörðum króna og ný störf gætu verið allt að 1.000. Árið 2014 voru flutt út 23.000 tonn. Þá voru hömlur á útflutningi sem síðar voru afnumdar og eftir það hefur orðið stöðug aukning á útflutningi á óunnum afla.“
Hann sagði að Íslendingar yrðu að nýta öll úrræði sem til eru til að halda uppi atvinnu í landinu. „Atvinnuleysi er samfélagsleg meinsemd sem kostar ríkissjóð háar fjárhæðir.“ Hann spurði hvort ráðherra væri reiðubúinn að beita einhvers konar hvötum til þess að auka fiskvinnslu hér á landi og draga úr útflutningi á óunnum fiski.
Sjálfsagt mál að ræða hugmyndir
Kristján Þór svaraði og sagði að sjónarmið sem heyrast í þessari umræðu ættu allan rétt á sér. „Við höfum hins vegar langa hefð fyrir því hér á landi að afla okkur tekna með því að fá sem hæst verð fyrir sjávarafurðir hverju sinni. Og við þekkjum það bara í gegnum tíðina að siglingar með fisk hafa verið mjög miklar á erlenda markaði. Ég þekki það sjálfur af eigin reynslu frá því ég var til sjós og ég held að þetta sé bara í öðru formi núna.
Það kann vel að vera að mönnum bregði við þegar þetta tekur kippi eins og þetta virðist vera að gera núna um þessar mundir og þá er sjálfsagt mál að ræða mögulegar leiðir til þess að auka við þá vinnslu sem hér á sér stað innan okkar vébanda ríkisins. Við sjáum það hins vegar vel að hvernig sjávarútvegurinn og fiskvinnslan hefur svarað þessu. Hún hefur svarað þessu með aukinni tæknivæðingu. Aukinni þekkingu, betri tæknigetu og sótt fram á erlendum mörkuðum á þeim grunni,“ sagði ráðherrann.
Hann sagði það vera flókið að reisa skorður við þessu og kallaði eftir því ef Birgir hefði hugmyndir í þá veru hvernig það yrði gert þá væri sjálfsagt mál að taka það til skoðunar. „En ég legg áherslu á það að undirliggur sömuleiðis að sjómenn gera kröfur um að fá sem hæst verð fyrir aflann og ef við ætlum að hygla einum hópi umfram annan þá verðum við að vera tilbúin í þá umræðu sömuleiðis. En ég lýsi mig reiðubúinn til þess að ræða hvaða hugmyndir sem er til þess að auka og styðja við frekari fullvinnslu afla hér á Íslandi, tvímælalaust.“
Pólitískur ótti hjá Sjálfstæðisflokknum
Birgir kom aftur í pontu og sagði að ekki væri nóg að ræða hlutina, það yrði einnig að framkvæma. „Þessi útflutningur er orðinn allt of mikill, ég held að það séu allir sammála um það.“
Hann spurði enn fremur hvort ráðherrann gæti hugsað sér að breyta aflareglu tímabundið í helstu tegundum nytjastofna meðan slæmt atvinnuástand varði og auka þannig vinnslu og veiðar sem myndi skila sér í aukinni atvinnu og auknum tekjum þjóðarbúsins.
„Að lokum vil ég segja það, herra forseti, að það eru hagsmunir þjóðarinnar í heild að verðmætasköpun úr sameiginlegri auðlind hennar verði sem mest innan lands. Það er pólitísk ákvörðun að sem mestur afli sé unninn hér heima – en það er pólitískur ótti hjá Sjálfstæðisflokknum að taka þá ákvörðun og virðist það ganga framar hagsmunum þjóðarinnar. Við getum ekki treyst því að hagnaðardrifin fyrirtæki í sjávarútvegi muni gera það sem er best fyrir þjóðina. Það er hlutverk stjórnmálamanna að verja störfin innan lands á erfiðum tímum og þeir verða að hafa kjark til þess.“
„Þessi umræða skilar okkur ekki neinu“
Kristján svaraði í annað sinn og sagði að hann hefði í fyrri ræðu kallað eftir hugmyndum frá þingmanninum hvernig ætti að auka við afla hér innan lands. „En það kom ekki ein einasta hugmynd. Það sem kom fram hjá háttvirtum þingmanni var það að saka pólitískan andstæðing um kjarkleysi. Það eru frasarnir sem við þekkjum þegar menn eru komnir í algjört málefnalegt þrot. Þá er hjólað manninn með þeim hætti sem háttvirtur þingmaður gerir hér. Þessi umræða skilar okkur ekki neinu. Kallið eftir tillögum að lausnum og við skulum ræða það hvar og hvenær sem er.
Þegar hér er fullyrt að hér sé allt of mikið flutt út af íslenskum fiski, hvert á þá markið að vera? Mér þætti vænt um að heyra það vegna þess að ég veit það að til dæmis í strandveiðum í sumar þá þökkuðu menn fyrir þennan möguleika að geta selt aflann á sem hæstu verði,“ sagði Kristján Þór.
„Varðandi aflaregluna þá bið ég háttvirtan þingmann að hafa það í huga að það er forsendan fyrir því hvernig við getum verðlagt íslenskar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum að við höfum vottanir á þeim afla sem við drögum úr sjó og eitt að því er að við vinnum á grundvelli sjálfbærrar nýtingar og ráðgjafar vísindamanna.“