Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG ætlar ekki að bjóða sig fram í næstu Alþingiskosningum og mun því að öllum líkindum ljúka sex ára þingmannaferli sínum næsta haust. Þetta kemur fram í grein eftir Ara á heimasíðu VG sem birt var í dag.
Í greininni segist Ari hafa verið fullur orku og hugmynda á þingferli sínum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Hann segir árangurinn sem náðst hafi í stjórnarsamstarfi VG við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn hafa verið vegferðarinnar virði og hafa knúið fram framfarir í mörgum málaflokkum, þótt þörf hafi verið á stærri eða róttækari félagslegum umbótaskrefum.
Ari þakkar einnig fyrir samstarfið með Katrínu Jakobsdóttur, sem hann segir hafa verið öfluga, réttsýna og trausta sem forsætisráðherra, auk þess sem hann hrósar Svandísi Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra fyrir að vera starfssöm, glögg og skilvirk.
Ari Trausti er eini þingmaður VG í Suðurkjördæmi, en flokkurinn hlaut 11,8 prósenta fylgi þar í síðustu Alþingiskosningum árið 2017.