Í ár er búist við að ríkið verji 187 þúsund krónum á hvern íbúa í rekstur Landspítalans, en það er rúmum fimm þúsund krónum minna en í fyrra á föstu verðlagi. Einnig má búast við að útgjöld til spítalans á næsta ári verði minni en árin 2019 og 2018, ef tekið er tillit til mannfjölda og verðlags.
Þetta kemur fram ef ársreikningar Landspítalans eru bornir saman við mannfjöldatölur Hagstofu og vísitölu neysluverðs. Samkvæmt ársreikningunum hafa árleg ríkisframlög til Landspítalans tvöfaldast á síðustu árum í krónum talið, eða úr 33 milljörðum króna árið 2010 í 66 milljarða króna árið 2019. Í nýrri fjárhagsáætlun Landspítalans kemur einnig fram að ríkissjóður býst við að verja 68 milljörðum króna í rekstur hans í ár.
Hins vegar, þrátt fyrir mikla krónutöluhækkun, er hún ekki jafnmikil ef tekið er tillit til verðlags og mannfjölgunar á síðustu tíu árum. Þróunina má sjá á mynd hér að neðan, en samkvæmt henni héldust þau nær óbreytt á milli 2010 og 2013, þar sem þau námu um 140 þúsund krónum á hvern íbúa á verðlagi 2020.
Á árunum 2017, 2018 og 2019 hafa svo ríkisútgjöldin aukist umfram verðbólgu og mannfjölgun, en með nokkuð hægari takti en á árunum á undan. í fyrra varði ríkissjóður svo mestum fjármunum í rekstur Landspítalans að raungildi, en þá námu þau um 193 þúsundum króna á hvern íbúa á verðlagi þessa árs. Í ár er hins vegar útlit fyrir að þau lækki um rúmar fimm þúsund krónur og verði 187 þúsund krónur á íbúa, miðað við fjárhagsáætlun Landspítalans.
Í fjárlagafrumvarpi til næsta árs er svo gert ráð fyrir að 72 milljarða króna framlagi til reksturs á Landspítalanum. Ef miðað er við mannfjöldaspá Hagstofu fyrir árið 2021 og gert er ráð fyrir 3 prósenta verðbólgu á tímabilinu jafngildir það framlag um 189 þúsundum króna á hvern íbúa á verðlagi þessa árs. Því yrði framlagið hærra en í ár, en þó lægra en árin 2019 og 2018.