Frumvarp Andrésar Inga Jónssonar, um að hámarkshraði bílaumferðar í þéttbýli verði að jafnaði 30 kílómetrar á klukkustund nema gild rök séu færð fyrir því að hraðinn þurfi að vera hærri, hefur vakið athygli og var til töluverðrar umræðu í liðinni viku, eins og mál tengd bílum verða oft í íslensku samfélagi.
Ef frumvarpið yrði að lögum myndi Ísland feta í fótspor bæði Hollands og Spánar, sem nýlega hafa boðað aðgerðir í þá átt að lækka hámarkshraða í þéttbýli á landsvísu, í anda stefnu sem mörkuð í svokallaðri Stokkhólmsyfirlýsingu um umferðaröryggi. Hún var undirrituð í febrúar og varð svo hluti af ályktun sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í ágúst.
Aðildarríki ályktunarinnar, Ísland þar á meðal, einsetja sér að ná stjórn á hraðakstri með því meðal annars að hafa leyfðan hámarkshraða 30 kílómetra á klukkustund á svæðum þar sem viðkvæmir vegfarendur eru innan um bifreiðar. Þetta á þó ekki við þar sem gild rök eru fyrir því að leyfa meiri hraða.
„Sú viðleitni að draga almennt úr hraðakstri mun hafa jákvæð áhrif á loftgæði og loftslagsbreytingar auk þess sem hún er nauðsynleg til að fækka dauðsföllum og slysum í umferðinni,“ segir um þetta atriði í Stokkhólmsyfirlýsingunni, sem Andrés Ingi vitnar til í greinargerð með frumvarpinu.
Með frumvarpinu er verið að færa til núllpunktinn varðandi umferðarhraða í þéttbýli, sem er í dag 50 km/klst., þannig að ekki þurfi að færa rök fyrir því að hafa hámarkshraðann lægri, eins og þarf að gera í dag. 30 kílómetrar á klukkustund verði einfaldega nýja normið og færa þurfi gild rök fyrir því að leyfður hraði á götum í þéttbýli eigi að vera meiri.
„Ólafur hefur greinilega bara ekki lesið málið“
Þingmaðurinn segir í samtali við Kjarnann að með frumvarpinu sé hann ekki að leggja til að hámarkshraði í þéttbýli verði alls staðar 30 kílómetrar á klukkustund og hvergi verði heimilt að keyra hraðar, eins og ef til vill mátti ráða af umfjöllun og umræðu um frumvarpið í liðinni viku, meðal annars útvarpsviðtali við Ólaf Guðmundsson varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni á fimmtudag.
„Ólafur hefur greinilega bara ekki lesið málið. Flest sem hann sagði í þessu viðtali er bara ekkert í þessu frumvarpi. Hann sagði til dæmis að við yrðum hérna öll keyrandi um á 30, en það er bara alls ekki málið, ekki frekar en að við séum að keyra öll á 50 í dag, þó að það sé hámarkshraðinn í þéttbýli,“ segir Andrés Ingi, sem bætir við að það sé „pínu vandræðalegt“ að þessar rangfærslur Ólafs hafi komið fram í þætti á sömu útvarpsstöð og hann sjálfur ræddi þingmálið í vikunni.
„Ég mætti í Bítið á þriðjudaginn og fór vel yfir þetta og ef þáttastjórnendur hefðu hlustað á Bítið hefðu þeir getað stoppað Ólaf í þessari dellu,“ segir Andrés Ingi.
Bent er á það í greinargerð með frumvarpinu að hraði bílaumferðar í þéttbýli hafi veruleg áhrif á mótun byggðar, sem um leið hafi áhrif á hegðun mannfólksins.
„Eftir því sem hönnun umferðarmannvirkja miðar við hærri hraða, því meira rými þarf að taka undir þau og því torveldara verður fyrir gangandi vegfarendur að komast leiðar sinnar. Með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpi þessu er ákvörðun um hámarkshraða færð í hendur skipulagsyfirvalda á hverjum stað. Sveitarfélagið hefur hagsmuni af því að skipuleggja umferð á hverju svæði þannig að auk þess að tryggðar séu greiðar samgöngur sé sköpuð aukin öryggistilfinning sem aftur eykur líkur á að fleiri fari ferða sinna gangandi og hjólandi,“ segir í greinargerðinni.
Einnig segir að lægri hámarkshraði í þéttbýli sé einn helsti áhrifaþátturinn í auknu umferðaröryggi, ekki síst þegar komi að árekstrum á milli ökutækja og óvarinna vegfarenda og bent er á að líkur á alvarlegum meiðslum eða dauðföllum þess sem er svo óheppinn að verða fyrir bíl stóraukast þegar árekstrarhraði hækkar úr 30 í 50 kílómetra á klukkustund.
„Á meðan það er erfitt að fyrirbyggja öll slys er mikilvægt að stýra hraða þannig að sem flestir sem lenda í slysum eigi möguleika á að ganga heilir frá þeim,“ segir í greinargerðinni. Þar segir einnig að þær breytingar sem lagðar eru til séu í fullu samræmi við markmið umferðarlaga um að vernda líf og heilsu vegfarenda, gæta jafnræðis á milli samgöngumáta og taka tillit til umhverfissjónarmiða, auk þess að vera í samræmi við yfirlýsingar sem íslensk stjórnvöld hafi staðið að á alþjóðavísu.
Rennur blint í sjóinn varðandi stuðning þingheims
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem eins og Andrés Ingi er fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna en stendur núna utan flokka, er eini meðflutningsmaður frumvarpsins.
Andrés segist hafa sent tölvupóst á alla þingflokka til þess að kynna frumvarpið og bjóða öðrum að setja nafn sitt við það, eins og þingmenn og þingflokkar gera jafnan þegar frumvörp eru á leið inn í þingið, en Rósa Björk var sú eina sem svaraði kallinu.
Andrés Ingi segist ekki vita hvað hann eigi að lesa í þau viðbrögð, varðandi væntan pólitískan stuðning við frumvarpið á þingi. „Þetta voru heimturnar. Ég var ekkert að ganga harðar á eftir þeim, þetta er það sem við gerum venjulega, að henda út neti og gá hvað kemur inn,“ segir Andrés Ingi.