Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands segir samstarfskonu sína Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur hafa tekið vægt til orða þegar hún sagði það ekki borga sig að slaka á sóttvörnum á landamærunum í sumar til að fá fleiri erlenda ferðamenn til landsins. Einnig segir hann það fela í sér „gríðarlegan“ fórnarkostnað að skylda ekki ferðamenn til að vera skimaðir á landamærunum, þótt stjórnvöldum geti fundist það óþægilegt.
Þetta kemur fram í grein Gylfa í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út í gær. Í greininni fer hann yfir hagfræðilega hugsun á tímum COVID-19 faraldursins og útskýrir hvaða fræðilegu álitaefni liggja á bak við sóttvarnaraðgerðir yfirvalda.
Samkvæmt honum eru sóttvarnir réttlætanlegar þar sem þær koma í veg fyrir að fólk valdi hverju öðru skaða með því að smita frá sér óafvitandi. Farsóttir feli í sér svokölluð neikvæð ytri áhrif og krefjist þær íhlutunar hins opinbera, þar sem erfitt sé að skilgreina eignarréttinn á því að búa í smitfríu samfélagi.
Fórnarkostnaður og langtímahugsun
Gylfi segir að íhlutun ríkisins geti falið í sér að einstaklingar beri réttan fórnarkostnað af gjörðum sínum og að koma ferðamanna til landsins feli í sér mikinn fórnarkostnað sökum aukinnar smithættu. Sé fórnarkostnaðurinn ekki tekinn með í reikning ferðamannanna gæti verið að þeir taki ákvörðunum sem séu einungis þeim sjálfum í hag en ekki samfélagsins alls.
Einnig minnist hann á mikilvægi þess að líta á kostnað og ávinning ákvarðana yfir langan tíma, svo ákvarðanir sem fela í sér skammtímagróða en mun meiri kostnað til langs tíma verði ekki teknar. Sem dæmi um þetta nefnir Gylfi baráttu Seðlabankans við verðbólgu, þar sem til skamms tíma væri æskilegra að bregðast ekki við henni með vaxtahækkunum, en sú ákvörðun gæti leitt til óðaverðbólgu og sársaukafullra aðgerða til langs tíma.
„Sjaldan hefur nokkur tekið jafn vægt til orða“
Í þessu tilliti bendir Gylfi á ummæli Tinnu Laufeyjar í ágúst, þar sem hún færði rök fyrir því að fórnarkostnaðurinn við að hleypa fleiri ferðamönnum inn til landsins væri of mikill miðað við hag ferðaþjónustunnar af væntri fjölgun þeirra. „Reynsla okkar í haust sýnir að sjaldan hefur nokkur tekið jafn vægt til orða þótt hún fengi gagnrýni og skammir fyrir,“ skrifar hann.
Gylfi tekur undir áhyggjur Tinnu af háum kostnaði af komu ferðamanna og segir hann gæti falist í nokkrum mannslífum, eða að því að 350 þúsund manns geti ekki haldið jólahátíðina með vinum og ættingjum, að nemendur geti ekki mætt í skóla og að innlent atvinnulíf verði fyrir skaða.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.