Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga Hagstofunnar er áætlað að landsframleiðslan hafi dregist saman um 10,4 prósent á þriðja ársfjórðungi, ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Samdrátturinn hér á landi mælist meiri en í öllum þeim Evrópulöndum sem hafa birt áætlanir sínar um þróun landsframleiðslunnar á tímabilinu.
Hagstofan greinir frá þróun landsframleiðslu í níu Evrópulöndum, auk Evrusvæðisins í heild og Bandaríkjanna. Samkvæmt þeim tölum er samdrátturinn næst mestur í Bretlandi, þar sem hann náði 9,6 prósentum, en á Evrusvæðinu dróst hún saman um 4,4 prósent. Í Bandaríkjunum mælist hann enn minni, eða á milli tvö og þrjú prósent.
Útflutningur hrynur en einkaneyslan stöðugri
Líkt og á öðrum ársfjórðungi er samdrátturinn mestur í útflutningi á vöru og þjónustu, en hann nam tæpum 39 prósentum miðað við sama tímabil í fyrra. Innflutningur dróst einnig saman um rúman fjórðung og fjármunamyndun dróst saman um rúm 15 prósent.
Fallið í einkaneyslu var ekki jafnhátt, en hún dróst saman um 2,3 prósent, miðað við þriðja ársfjórðung í fyrra. Samneysla jókst svo um 4,4 prósent á tímabilinu.
Lítill munur milli fjórðunga
Ef litið er til mun á landsframleiðslu milli annars og þriðja ársfjórðungs sést einnig töluverður munur á Íslandi og öðrum Evrópulöndum. á Evrusvæðinu, þar sem landsframleiðslan féll töluvert á öðrum ársfjórðungi, náði hún að hluta til fyrri styrk á þeim þriðja og óx um 12,6 prósent á milli ársfjórðunganna. Munurinn var hins vegar töluvert minni hér á landi, þar sem landsframleiðslan á þriðja ársfjórðungi var aðeins 2,6 prósentum meiri en á öðrum fjórðungi ársins.