Átta af hverjum tíu fyrirtækjum í ferðaþjónustunni gripu til aðgerða til að laða að sér Íslendinga síðasta sumar. Þó tók aðeins helmingur þeirra á móti Ferðagjöf stjórnvalda, en verð á þjónustu fyrirtækjanna lækkaði um 35 prósent. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Gallup fyrir Ferðamálastofu um rekstur ferðaþjónustunnar á liðnu sumri og hagnýtingu fyrirtækja á stuðningsaðgerðum stjórnvalda.
65 prósenta samdráttur
Samkvæmt niðurstöðunum voru Íslendingar 57 prósent af heildarviðskiptavinum fyrirtækjanna og er það hlutfall rúmlega tvöfalt hærra en í fyrra. Þrátt fyrir það dróst heildarfjöldi viðskiptavina saman hjá miklum meirihluta fyrirtækjanna og velta dróst saman að jafnaði um 65 prósent milli ára.
Til að bregðast við samdrættinum tóku flest ferðaþjónustufyrirtæki til sértækra aðgerða til að laða að Íslendinga í sumar. Vinsælasta úrræði þeirra var að taka á móti Ferðagjöf stjórnvalda, sem var fimm þúsund króna inneign sem Íslendingar gátu nýtt sér, en 52 prósent fyrirtækjanna tóku við slíkri inneign. Hlutfall fyrirtækja sem tóku á móti ferðagjöfinni var hæst í gistiþjónustu, þar sem 61 prósent gististaða nýttu sér úrræðið. Hlutfallið var lægst á meðal samgöngufyrirtækja í ferðaþjónustunni, en þar tóku aðeins 23 prósent fyrirtækja við gjöfinni.
Gististaðir lækkuðu meira
Til viðbótar við að taka við ferðagjöfinni lækkaði tæpur helmingur allra ferðaþjónustufyrirtækja verð á þjónustu sinni, en verðlækkunin nam að meðaltali 35 prósent. Skýran mun má þar sjá á milli gististaða og annarra ferðaþjónustufyrirtækja, þar sem verðlækkanirnar voru mun algengari hjá fyrrnefnda hópnum en þeim seinni. Rúmlega þrír af hverjum fjórum gististöðum lækkuðu verðið á þjónustu sinni, á meðan aðeins einn af hverjum fjórum veitingastöðum gerðu það. Að meðaltali lækkaði verð á gististöðum um rúm 41 prósent.