Forsætisnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum í síðustu viku, 24. nóvember, að erindi sem henni barst um meint brot Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, á siðareglum fyrir alþingismenn í tilefni af ummælum hennar á þingfundi 21. október 2020 væri ekki tækt til fyrirtöku. Því var erindinu vísað frá. Greint var frá þessu á vef Alþingis í dag.
Erindið snýst um viðbrögð Þórhildar Sunnu við umfjöllun í fjölmiðlum um þýðingu merkja sem lögreglumenn hefðu borið við störf sín og ósk hennar um fund í allsherjar- og menntamálanefnd um málið.
Ummæli þingmannsins féllu í pontu Alþingis og því hefði það átt að vera forseta Alþingis að gera athugasemdir við þau ef tilefni væri til, sem hann gerði ekki. Í niðurstöðu nefnarinn segir að telji almennur borgari að forseti Alþingis hafi ekki gætt þess að þingmenn gæti góðrar reglu í máli sem hann varðar verði að hafa í huga að athafnir eða athafnaleysi forseta við stjórn þingfunda sæta ekki endurskoðun. „Ágreiningur um slíkt verður því ekki borinn undir forsætisnefnd eða eftir atvikum leitað álits siðanefndar á honum. Í ljósi þess er það niðurstaða forsætisnefndar að skilyrði brestur til þess að nefndin taki erindi þitt til athugunar á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn. Er þá einnig horft til þeirrar ríku verndar sem tjáningarfrelsi þingmanna nýtur samkvæmt stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu.“
Búið er að fjarlægja nafn þess sem kvartaði yfir ummælum þingmannsins úr niðurstöðu forsætisnefndar, en heimildir Kjarnans herma að kvartandinn hafi verið lögreglukonan sem bar ofangreind merki.
Taldi skorta á fræðslu um rasísk og ofbeldisfull merki
Viðbrögð Þórhildar Sunnu, sem vísað var til forsætisnefndar til umfjöllunar, snerust um fjölmiðlaumfjöllum um ljósmynd Morgunblaðsins af lögreglukonu sem bar merki hvítra þjóðernissinna og táknmynd teiknimyndaandhetjunnar „The Punisher“ eða Refsarans við skyldustörf sín. „Punisher-merkið er ekki sakleysisleg tilvísun í teiknimyndapersónu úr Marvel-heiminum heldur táknmynd lögreglunnar vestan hafs sem refsandi afls þeirra sem taka lögin og refsingar í eigin hendur og sneiða fram hjá réttarkerfinu,“ sagði þingmaðurinn í pontu á Alþingi þann 21. október síðastliðinn.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti því yfir á Twitter þennan sama dag að hún hefði ítrekað við allt sitt starfsfólk að lögreglumenn ættu ekki að bera nein merki sem ekki eru viðurkennd á lögreglubúningi og því verði fylgt eftir.
Þórhildur Sunna sagði það vera jákvæðar fréttir en betur mætti ef duga skyldi. Sérstaklega í ljósi ummæla lögreglukonunnar sem um ræddi sem sagði í samtali við Vísi þennan dag að merki sem þessi væru notuð af mörgum lögreglumönnum og að hún teldi ekki að þau þýddu neitt neikvætt. Hún hefði sjálf borið merkin í áraraðir. „Ummæli lögreglukonunnar benda til þess að annað hvort skorti mikilvæga fræðslu innan lögreglunnar um rasísk og ofbeldisfull merki eins og Vínlandsfánann og punisher- eða refsaramerkið – nú eða það sem verra væri: Að rasismi og ofbeldisfull menning fái að grassera innan lögreglunnar. En hvoru tveggja er óásættanleg staða.“
Þórhildur Sunna óskaði í kjölfarið eftir því að nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar myndu ræða við fulltrúa lögreglunnar um rasisma innan lögreglunnar og aðferðir til að sporna við honum.