„Enn og aftur bera Samtök atvinnulífsins á borð þá firru að lausnin á kórónaveirukreppunni sé að skerða kjör láglaunafólks.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu í dag.
Tilefni tilkynningarinnar eru orð Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), í umræðuþættinum Víglínan síðastliðinn sunnudag. Þar talaði hann meðal annars um núgildandi kjarasamninga og „óheillaþróun“ á vinnumarkaði en hann telur þær launahækkanir sem framundan eru ekki heillavænlegar.
Halldór Benjamín sagði að SA hefði í tvígang reynt að fá verkalýðshreyfinguna til að gera breytingar á kjarasamningi til þess að tryggja það að við sæjum ekki „þessar skelfilegu atvinnuleysistölur sem við höfum séð. Ég hef fallist á það að við látum þessar launahækkanir koma til framkvæmda en ég segi hér og mun segja víðar: Ég mun halda til haga hverjar afleiðingar þessarar ákvörðunar eru. Þetta er röng ákvörðun að mínu mati en ég tel að Samtök atvinnulífsins hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að afstýra því stórslysi sem er framundan á íslenskum vinnumarkaði.“
Í tilkynningu Eflingar vill stéttarfélagið koma eftirfarandi á framfæri:
- Lágmarkstaxtar kjarasamninga stjórna ekki launamyndun í landinu. Minnihluti launafólks á almennum vinnumarkaði, sá lægst launaði, tekur kjör sín eftir þeim. Meirihlutinn er á markaðslaunum sem samið er um á einstaklingsgrundvelli. Atvinnurekendum er heimilt að endursemja við sitt starfsfólk um markaðslaun umfram lágmarkstaxta, að virtum fyrirvara.
- Kjarasamningsbundin taxtalaun, lágmarkslaun hinna verst launuðu, eru einu launin á almennum vinnumarkaði sem ekki er hægt að endursemja um á þennan hátt. Þetta eru þau laun sem framkvæmdastjóri SA krefst nú sérstakra árása á og kennir um að séu valdur að atvinnuleysi. Það er mjög villandi kenning.
- Hæstu lágmarkslaun í kjarasamningi Eflingar og SA eru nú 341.680 krónur á mánuði en það eru grunnlaun í dagvinnu fyrir hópbifreiðastjóra með 5 ára starfsaldur. Þau laun munu hækka um 24 þúsund þann 1. janúar 2021, fyrir skatt, og nemur hækkunin um 7 prósent. Margir hópferðabílstjórar eru nú atvinnulausir. Þeir fá ekki vinnu þó launataxti þeirra verði frystur, heldur með endurkomu ferðafólks til landsins.
- Langstærstur meirihluta íslenskra fyrirtækja er í blómlegum rekstri, og þau sem eru í vanda hafa notið ríflegrar aðstoðar úr ríkiskassanum einmitt til að geta staðið undir launagreiðslum. Sum fyrirtæki tengd ferðaþjónustu eru vissulega í alvarlegum vanda og hafa jafnvel hætt rekstri, en gjaldþrota fyrirtæki ráða þó ekki fólk í vinnu.
- Í sínu eigin kynningarefni hafa Samtök atvinnulífsins bent á að sparnaður heimila hafi aukist á síðustu mánuðum. SA halda því fram að þetta sé til marks um „takmörkuð tækifæri til neyslu“ en í þeim orðum birtist algjör veruleikafirring SA gagnvart lífskjörum láglaunafólks. Fólk með 341.680 krónur í grunnlaun á mánuði sparar ekki; það eyðir hverri krónu í nauðsynjar sama þótt þau laun hækki um 7 prósent milli ára. Sú hækkun mun í tilviki láglaunafólks leiða beint til aukinnar neyslu, ekki sparnaðar, og verða innanlandshagkerfinu dýrmæt örvun. Þetta hefur Efling hefur margítrekað bent á, sjá t.d. nýlega skýrslu „Leið Eflingar út úr kreppunni.“
- Þeir sem fylla nú bankareikninga sína af sparnaði er stóreigna- og hálaunafólk af þeirri sömu stétt forréttindafólks og fer með völd í SA. Framkvæmdastjóra SA væri nær að biðla til þessara stéttbræðra sinna um að fjárfesta meira í atvinnuþróun eða auka neyslu í stað þess að vega að verkafólki með laun undir opinberum framfærsluviðmiðum.