Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), fagnar þeirri hugmynd Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, að bótasvik í almannatryggingakerfinu verði rannsökuð.
Hugmyndina setti Brynjar fram í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar og bætti við að hann vissi um fjölmarga öryrkja sem drýgi tekjur sínar með svartri vinnu.
Þar sagði Brynjar einnig að samfélagið stæði ekki undir veldisvexti í fjölgun öryrkja. „Ef þróunin verður þannig að á hverjum skattgreiðanda hvílir einn öryrki og einn aldraður, þá er það orðið ansi mikið og eitthvað sem gengur auðvitað ekki til lengdar. Ef þeim sem nettó greiða skatt heldur stöðugt áfram að fækka, þá erum við auðvitað ekki lengur sjálfbær og þá þarf að grípa til aðgerða, sagði Brynjar.
Þuríður Harpa segir í yfirlýsingu að hún taki heilshugar undir með Brynjari um að skoða í kjölinn aðbúnað öryrkja á Íslandi. „Rannsókn Brynjars mun þannig staðfesta að um helmingur þeirra sem koma nýir inn á örorku, eru konur komnar yfir fimmtugt, slitnar á sál og líkama. Rannsókn Brynjars mun líka leiða í ljós að hlutfall öryrkja sem stundar svarta atvinnu, er svipað, eða aðeins lægra, en hlutfall annara Íslendinga sem vinna svart. Rannsóknarnefnd Brynjars getur kíkt í skýrslu sem geymd er í skrifborðsskúffu fjármálaráðherra, sem sýnir að samfélag okkar verði af 87 til ríflega 200 milljörðum á ári vegna skattsvika. Rannsókn Brynjars mun staðfesta að öryrkjar eru þar ekki ráðandi afl.
Rannsókn Brynjars muni leiða í ljós háu girðingar sem hann og samstarfsfólk hans hafi reist um atvinnuþátttöku öryrkja, og leitt hefur til þess að fæstir innan þeirra ráða sjá sér haf í að reyna fyrir sér á vinnumarkaði. Ástæða þess sé sú að fyrir hverjar 100 þúsund krónur sem þeir geta aflað sér þar sitji eftir tólf þúsund krónur í vasa öryrkja þegar skerðingar og skattar hafi verið tekin með í reikninginn. Þrátt fyrir þetta séu þriðjungur öryrkja á vinnumarkaði og rétt tæplega 40 prósent þess hóps er í fullu starfi.
Þuríður Harpa segir þó enga rannsókn þurfa til að sjá „hve miklir fordómar og andúð eru enn ríkjandi í samfélagi okkar í garð fatlaðs fólks, og ótrúleg tilviljun að það skuli staðfestast með þessum hætti á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks,“ en sá dagur er í dag, 3. desember.