Íslenskir fæðinga- og kvensjúkdómalæknar vilja að verðandi mæður hafi rétt til þess að fara í orlof eftir 36 vikur meðgöngu án þess að réttindi þeirra til frekari orlofstöku eftir fæðingu skerðist. Þetta kemur fram í umsögn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FíFK) til Alþingis um endurskoðun um á lögum og fæðingar- og foreldraorlof.
„Það er mikið álag á konur á seinni hluta meðgöngu jafnvel þó þær séu í eðlilegri meðgöngu án læknisfræðilega sjúkdóma eða fylgikvilla. Því er mjög algengt að þær leiti til mæðraverndar og lækna til að fá veikindavottorð vegna algengra fylgikvilla meðgöngunnar,“ segir í umsögn læknafélagsins, sem sendi samhljóða umsögn inn í samráðsgátt stjórnvalda þegar frumvarpið var lagt þar fram í haust.
Engu var þó bætt við í framlögðu frumvarpi félags- og barnamálaráðherra hvað þetta varðar og er umsögn læknanna því lögð fram óbreytt.
Ekki skylda að hætta að vinna
Félagið segir að það sé „mikilvægt fyrir heilsu barnshafandi kvenna og réttlætismál að þær hafi rétt til að fara í orlof strax við 36 vikur án þess að réttindi skerðist eftir fæðingu“ og nefnir að á þennan hátt yrðu konur ekki eins þreyttar og gætu betur tekist á við fæðinguna og umönnun barnsins eftir fæðingu.
„Orlofið yrði ekki skylda heldur gætu sumar konur ákveðið að halda áfram í vinnu. Þetta gæti orðið til þess að sumar konur reyndu að halda áfram í vinnu lengur en annars væri ef vissu að þær færu í orlof við 36 vikur,“ segir í umsögninni.
Konur í láglaunastörfum eigi erfiðara með að fara í leyfi
Læknarnir segja að í núverandi kerfi eigi konur mjög mismunandi auðvelt með að fara í veikindaleyfi undir lok meðgöngu. „Veikindaréttindi er mismunandi og sérlega er talið að konur af erlendu uppruna í láglaunastörfum eigi erfitt með að fara í veikindaleyfi. Með þessum breytingum myndi jafnast aðstaða kvenna síðast á meðgöngunni. Jafnframt yrði auðveldara fyrir atvinnurekendur að skipuleggja afleysingu fyrir þungaða konu,“ segir í umsögninni.
Ísland ætti að veita þennan rétt eins og Noregur og Danmörk
Í umsögn FíFK er bent á að í Noregi og Danmörku séu svipuð ákvæði um rétt kvenna til að hætta vinnu við 36 vikna meðgöngu. „Við teljum að íslenskar konur eigi ekki síður en kynsystur þeirra á norðurlöndunum að hafa rétt á að hætta vinnu við 36 vikur,“ segja læknarnir, sem víkja einnig að því í umsögn sinni að ef þessi breyting yrði gerð myndi álag á lækna og ljósmæður minnka, en þar er átt við að í dag séu læknar að sinna kvörtunum frá og vottorðaskrifum fyrir konur sem hafi eðlileg einkenni meðgöngu.
Starfshópur Svandísar um fæðingarþjónustu á sömu skoðun
Formaður félagsins, Alexander K. Smárason, skrifar undir umsögnina. Hann nefnir í niðurlagi hennar að hann hafi starfað í þverfaglegum starfshópi Svandísar Svavarsdóttur um stefnumótun í barneignarþjónustu, sem skipaður var í lok árs 2019.
Alexander skrifar að það hafi verið sameiginlegt mat allra í starfshópnum að stefna ætti að því að konur á Íslandi hafi rétt til að fara í meðgönguorlof eða fæðingarorlof frá 36 vikum án þess að það skerti orlof eftir fæðingu og að þetta álit myndi koma fram í væntanlegri skýrslu hópsins til heilbrigðisráðherra.